Óskað var eftir aðstoð lögreglu og sjúkraflutningamanna á Petersen svítunni, í miðbæ Reykjavíkur, vegna gruns um að einstaklingum hafi verið byrlað ólyfjan inni á staðnum síðastliðið laugardagskvöld. Þetta staðfestir Guðvarður Gíslason, framkvæmdastjóri Petersen svítunnar, í samtali við mbl.is.
Mbl.is bárust ábendingar um að dyraverðir Petersen svítunnar hafi varað gesti staðarins við því að skilja drykki sína eftir á glámbekk, þar sem grunur léki á um að þremur einstaklingum hafi verið byrlað inni á staðnum þetta umrædda kvöld. Guðvarður áréttar þó í samtali við blaðamann að málin hafi verið tvö en ekki þrjú.
„Það var allavega ein stúlka sem fer út og við fréttum að hún hafi farið á sjúkrahús. Síðan er önnur stúlka sem kemur utan af palli, í mjög annarlegu ástandi, með systur sinni og kærasta, þannig það var ákveðið að kalla til lögreglu og sjúkrabíl. Meira vitum við ekki um enda málin úr okkar höndum sem slík.“
Inntur eftir því segist Guðvarður ekki kannast við að mál af þessu tagi hafi komið upp á staðnum áður og því hafi atburðir laugardagskvöldsins verið einkar óvanalegir.
„Ég hef ekki orðið var við þetta þegar ég hef verið hér, síst tvö tilfelli á einu kvöldi, en við vitum aldrei hvar sauðurinn í úlfagærunni er. Það er 22 ára aldurstakmark inn og við erum mjög ströng á því. Svo eru dyraverðirnir stöðugt á röltinu um staðinn að fylgjast með.“
Þá segir hann afar sjaldgæft að lögreglan þurfi að hafa afskipti af staðnum. Það sé þá yfirleitt þegar vísa þurfi einhverjum út af staðnum eða meina einhverjum inngöngu inn á staðinn vegna annarlegs ástands.
„Lögreglan kemur mjög sjaldan hingað. Það gerist örsjaldan. Við köllum þó auðvitað alltaf eftir aðstoð ef einstaklingur inni á staðnum er í þannig ástandi að dyraverðir eða starfsmenn ráða ekki við hann, hvort sem það er vegna byrlunar eða einhvers annars. Við tökum ekki á fólki.“
Ekki náðist í lögregluna á höfuðborgarsvæðinu við vinnslu fréttarinnar.