Á Íslandi er dreifing launa jöfn í alþjóðlegum samanburði, en þó ójafnari en á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í nýju mánaðaryfirliti stefnumótunar og greiningar, sem Alþýðusamband Íslands birti á föstudag.
Þar er jafnframt fjallað um nýja skýrslu gjaldeyrissjóðsins (IMF) um opinber fjármál, sem sýnir að lægri vextir hafi gert það að verkum að þjóðir beri hærra skuldahlutfall og að skuldaviðmið sem stuðst var við fyrir heimsfaraldur kunni að vera of takmarkandi.
Ójöfnuður á mælikvarða ráðstöfunartekna er lágur hér á landi í alþjóðlegum samanburði, en atvinnuþátttaka og aldurssamsetning geta haft talsverð áhrif á mældan ójöfnuð þegar skoðaðar eru ráðstöfunartekjur.
Á Íslandi er atvinnuþátttaka mikil og hlutfall fólks á vinnufærum aldri, hærra en í nágrannalöndum. Því telur ASÍ nærtækara að líta til launadreifingar hjá þátttakendum á vinnumarkaði.
Launadreifing tekur mið af hlutfalli efstu og neðstu tíundar launa. Þannig eru laun hæst launaða tíu prósenta launafólks borin saman við laun þeirra tíu prósent, lægst launuðu. Hér er miðað við mánaðarlaun fullvinnandi einstaklinga.
Í tilkynningu frá ASÍ kemur fram að í Evrópu sé hlutfallið á bilinu tveir til fimm, þ.e. að hátekjufólk sé með tvöfalt, til fimmfalt hærri laun en lágtekjufólk.
Þessi munur er minnstur á Norðurlöndunum, á bilinu 2,1 til 2,7. Á Íslandi er hlutfallið 2,8 sem sýnir að Ísland er með aðeins ójafnari launadreifingu en hin Norðurlöndin, þó að dreifingin sé jöfn í alþjóðlegum samanburði.
„Ólíkt því sem oft er haldið fram er launadreifingin hér á landi ekki þjappaðri en í nágrannaríkjum heldur sambærileg við Norðurlöndin. Lönd þar sem kjarasamningar eru sterkir búa við þjappaðri launadreifingu en að meðaltali í Evrópu og meiri jöfnuð. Ísland er í þeim hópi,“ segir í tilkynningunni.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti nýverið skýrslu um opinber fjármál þar sem áskoranir í ríkisfjármálum á komandi árum voru til umfjöllunar. Þar er hlutfall opinberra skulda af landsframleiðslu, áætlað 17,8 prósentustigum hærra en fyrir heimsfaraldurinn.
Á Íslandi hefur hækkunin þó verið minni en hjá flestum öðrum löndum og er áætlað að skuldir ríkissjóðs hækki um 9,7 prósentustig.
Sjóðurinn mælir með því að viðhalda ríkisútgjöldum í löndum sem hafa til þess svigrúm. Lækkun vaxta hafi leitt til þess að vaxtabyrði hefur staðið í stað og þjóðir þoli því hærri skuldir en ella.