„Það eru þúsundir fjár sem hefur verið fargað vegna riðu á undanförnum árum og stór skörð höggvin í sauðfjárræktina í landinu. Við þurfum að fara að kveða þennan draug niður,“ segir Eyþór Einarsson, sauðfjárræktarráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, RML, sem staddur var í Vestmannaeyjum á fimmtudaginn. Tók hann sýni úr kindum Eyjamanna í leit að arfberum sem gera kindur lítið eða alveg ónæmar fyrir riðusmiti.
„Það er engin lækning við riðunni og illframkvæmanlegt að taka sýni úr lifandi fé til að skoða hvort það sé sýkt. Hérlendis þarf a.m.k. að aflífa kindurnar og taka heilasýni til að kanna hvort þær eru sýktar ef grunur vaknar um smit og því er erfitt að eiga við þetta. Niðurskurður og þrif eru gríðarlegur pakki fyrir þann sem lendir í þessu. Þá þarf að skipta um bústofn og vera fjárlaus í a.m.k. tvö ár. Þrífa allt hátt og lágt og skipta um innréttingar og jarðveg. Það er því til mikils að vinna að útrýma riðunni,“ segir Eyþór.
Íslenskir sauðfjárbændur hafa þurft að kljást við þennan sjúkdóm í meira en 100 ár. Fyrir u.þ.b. 40 árum var mörkuð sú stefna að útrýma veikinni m.a. með niðurskurði. Ákveðinn árangur hefur náðst að því leyti að stór svæði á landinu eru laus við riðu, alla vega eins og er, en það gengur þó mjög illa að uppræta hana alveg, sérstaklega á ákveðnum svæðum á Norðurlandi. „Þess vegna erum við í þessu verkefni og höfum fulla trú á að hægt sé að beita rækun í meira mæli og koma upp þolnari og öflugri stofnum gagnvart riðunni.“
Eyþór segir að í löndum Evrópusambandsins sé ekki beitt heildarniðurskurði við riðu. „Þar er verið að vinna með arfgerð af príongeninu sem er algjörlega verndandi, en kindur með slíka arfgerð geta ekki veikst. Hér á landi er þekkt svokölluð áhættu arfgerð, sem reynt hefur verið að sneiða hjá í ræktun og síðan höfum við „lítið næma“ arfgerð sem virðist veita mjög mikið viðnám geng riðu. Hafa bændur getað nýtt sér þetta í ræktunarstarfinu. Við höfum hins vegar aldrei fundið þessa verndandi arfgerð sem þeir eru aðallega að vinna með úti í Evrópu.“