Aðalmeðferð í sakamáli gegn bræðrunum Ágústi Arnari Ágústssyni og Einari Ágústssyni, sem kenndir hafa verið við félagið Zuism, hefur verið frestað fram í febrúar, en hún átti upphaflega að fara fram dagana 16.-17. nóvember. Þetta var ákveðið í fyrirtöku málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag. Það er Rúv sem greinir fyrst frá málinu. Ásamt bræðrunum er málið höfðað gegn Zuism trúfélagi, EAF ehf. og Threescore LLC.
Ágúst og Einar voru í forsvari fyrir félagið Zuism trúfélag, en eins og mbl.is hefur áður greint frá voru þeir ákærðir fyrir fjársvik og peningaþvætti í tengslum við starfsemi félagsins. Eru þeir sagðir hafa svikið úr ríkissjóði um 85 milljónir sem greiddar voru út í formi sóknargjalda án þess að hafa uppfyllt skilyrði sem skráð trúfélag.
Í ákæru málsins kom fram að „blekkingar ákærðu“ hafi lotið að því að innan félagins væri lögð stund á átrúnað eða trú í virkri og stöðugri starfsemi og að trúarbrögðin hefðu náð fótfestu hér á landi og að í félaginu væri kjarni félagsmanna sem tæki þátt í starfsemi þess og styddi lífsgildi þess í samræmi við kenningar þær sem trúfélagið var stofnað um. Raunin hafi hins vegar verið að ekki fór fram á vegum félagsins nein eiginleg trúariðkun eða tengd starfsemi sem gat samræmst með réttu þessum lagaskilyrðum.
Þá hafi fjármunum sem runnu til trúfélagsins frá ríkissjóði í raun ekki verið varið til eða í þágu eiginlegrar trúariðkunar eða tengdrar starfsemi, heldur verið ráðstafað með öðrum og óskyldum hætti, meðal annars í þágu bræðranna, „sem fóru einir með prókúru trúfélagsins, ráðstöfun fjármuna þess og stjórn þess í reynd,“ segir í ákærunni.
Segir í ákærunni að bræðurnir hafi blekkt stjórnvöld þegar þeir upplýstu um trúfélagið uppfyllti lögbundið skilyrði skráningar. Þá segir þar jafnframt að Einar hafi millifært 46,4 milljónir af bankareikningi Zuism yfir á einkahlutafélagið EAF. Eigandi EAF var félagið Skajaquoda Capital LLC, en það var í raunverulegri eigu Einars.
Auk millifærslnanna var látið líta út fyrir að EAF hefði lánað Zuism fjármuni og að Zuism hefði keypt EAF af Skajaquoda.
Var stór hluti fyrrgreindrar upphæðar, samtals 39,6 milljónir, millifærður á reikning EAF hjá verðbréfafyrirtæki í Bretlandi og á bankareikning Einars í JPMorgan í Bandaríkjunum. Þaðan var stór hluti fjármunanna fluttur á reikning Threescore LLC.
Fram kemur að ráðstafað hafi verið um 6,6 milljónum króna í svonefndar endurgreiðslur á trúfélagsgjöldum, en ein meginskýring þess að fólk skráði sig í félagið á sínum tíma voru loforð um að félagsmenn fengju sóknargjöld endurgreidd. Þá greiddi félagið 9,7 milljónir í lögfræðikostnað, 2,4 milljónir í styrkgreiðslur til góðgerðarmála og 2,3 milljónir í aðrar greiðslur.
Þá tóku bræðurnir út 6,4 milljónir í reiðufé af reikningum félagsins og 4,4 milljónir voru notaðar í vöru- og þjónustukaup, svo sem hjá veitingahúsum, áfengisverslunum, eldsneytisstöðvum, matvöruverslunum og fjarskiptafyrirtækjum svo og vegna ferðakostnaðar.