Meirihluti stjórnar styðji Sólveigu

Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður Eflingar. mbl.is/Hari

Meirihluti stjórnarmanna í Eflingu styður við bakið á Sólveigu Önnu Jónsdóttur, fráfarandi formanni félagsins, sem sagði embætti sínu lausu seint í gærkvöld. Þetta segir Michael Bragi Whalley, einn stjórnarmanna, í samtali mbl.is. 

Hann segir að engin kvörtun hafi borist á borð stjórnar sem er í líkingu við það sem kemur fram í yfirlýsingu trúnaðarmanna starfsfólks á skrifstofu Eflingar. Í þeirri yfirlýsingu er meintum ógnarstjórnartilburðum Sólveigar lýst. 

„Meirihluti stjórnarmanna styður við bakið á Sólveigu í þessu máli eins og stendur,“ segir Michael.

Hann vildi lítið tjá sig meira um málið en segir þó aðspurður að stjórnin hafi ekki vitað af málinu.

„Það kom upp, eins og Guðmundur lak í fjölmiðla, sem er alveg rétt hjá Sólveigu, ályktun sem var bara verið að vinna hérna innanhúss og við töldum ekki meira um málið að segja þá. Hvað málið varðaði, vissum við ekki. En, eins og ég segi, þá hafa engar kvartanir borist til stjórnarinnar.“

Michael segir að ekki hafi verið ákveðið hvort stjórnin fundi um málið í dag en það gerði hún í gær. 

Daníel Örn Arnarsson, sem einnig situr í stjórn Eflingar, staðfestir orð Michaels að Sólveig njóti stuðnings stjórnar. „Við í stjórninni styðjum hennar ákvörðun og ég hef ekkert við það að bæta,“ segir hann í samtali við mbl.is. „Mér finnst þetta virkilega leiðinlegt, að sjálfsögðu,“ segir hann jafnframt, en tjáir sig ekki frekar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert