Guðni Halldórsson, formaður Landsambands hestamanna segir að það hefði verið óverjandi að bregðast ekki hratt við, þegar stjórnin fékk vitneskju um brot Jóhanns Rúnars Skúlasonar, fyrrum landsliðsknapa og ríkjandi heimsmeistara.
Jóhanni Rúnari hefur verið vikið úr landsliðinu vegna dóms sem hann hlaut 1993 fyrir kynferðisbrot gegn 13 ára gamalli stúlku.
Áður en ákvörðun var tekin kallaði stjórn LH eftir afriti af dómsniðurstöðunni frá Héraðsdómi Norðurlands vestra.
Þá segir Guðni að alger eining hafi verið innan stjórnar um frávikninguna. „Það var jákvætt að menn gátu verið sammála og samstíga.“
Nokkrum dögum áður kom upp umfjöllun um dóm sem Jóhann Rúnar hlaut í Danmörku fyrir heimilisofbeldi gegn þáverandi sambýliskonu sinni.
Guðni segir að þegar það mál hafi komið upp hafi það ekki þótt tilefni til skjótra viðbragða, enda sé næsta verkefni landsliðsins ekki fyrr en í ágúst á næsta ári, Norðurlandamótið.
„Þeir sem vinna heimsmeistaratitla eru ekki valdir í landsliðið heldur fylgja sínu landsliði á næstu heimsleika og fá að verja sinn titil. Það er þó enginn skýlaus réttur. Það var metið svo þegar þetta mál með heimilisofbeldið kom upp að það lægi ekkert á, því það eru engin verkefni framundan.“
Málið horfir allt öðruvísi við eftir að stjórninni var gert viðvart um dóminn þar sem Jóhann Rúnar var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn þrettán ára stúlku, að sögn Guðna. Þá hafi verið óverjandi að bregðast ekki hratt við.
Jóhann Rúnar er búsettur í Danmörku og hefur verið það um langt skeið. „Hann getur sóst eftir því að fá að keppa fyrir hönd Danmerkur, en það er þá bara mat danska sambandsins, hvernig þeir líta á málið,“ segir Guðni og bætir við að LH velti því ekki mikið fyrir sér.
Landsamband hestamanna (LH) er stærsta sérsamband innan Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ), sem vinnur nú að bættum verkferlum í tengslum við kynferðisafbrotamál. Guðni segir að LH muni fylgja ÍSÍ í þeim efnum.