Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður Eflingar, birti færslu á Facebook í kvöld þar sem hún lýsti ofbeldishótunum af hendi starfsmanns Eflingar. Hún segist standa við ákvörðun sína sem sé hún að viðurkenna sín takmörk sem manneskja.
Sólveig byrjar á því að fjalla um fréttaflutning Vísis þar sem starfsmenn sem koma ekki fram undir nafni fjölluðu um stjórnunarhætti Sólveigar:
„Þessi orð fengu mig til að hugsa um atburði sem gerðust á vinnustaðnum fyrir ríflega tveimur vikum. Þá gerðist það að ég var beðin að koma á fund þar sem mér var tilkynnt um að einn af karlkyns starfsmönnum skrifstofu Eflingar hefði lýst því yfir við annan starfsmann að hann væri mjög reiður út í mig og væri að hugsa um að fara heim til mín og vinna mér þar skaða sem ekki var lýst nánar en voru augljóslega einhvers konar ofbeldi.“
Hún segist ekki kannast við að hafa gert neitt á hlut þessa manns en skilst að hann hafi verið óánægður með að annar starfsmaður hafi fengið stöðuhækkun sem hann taldi sig eiga rétt á.
„Þetta dæmi, sem er staðfest með skriflegum vitnisburði sem liggur inni hjá mannauðsstjóra skrifstofu Eflingar, er aðeins eitt af mörgum um það ofstæki og þá heift sem þótt hefur eðlilegt að ég sitji undir af hálfu starfsfólks Eflingar frá þeim degi sem ég var kosin sem formaður Eflingar,“ segir í færslu Sólveigar.
Þá rifjar hún upp starfsmannafund sem fór fram á föstudag þar sem Sólveig setti starfsmönnum sínum afarkosti. Að draga ályktunina til baka ellegar segði hún af sér:
„Á föstudaginn ávarpaði ég starfsfólk Eflingar. Ég vildi spyrja þau hvort þau gætu hugsað sér að afstýra neikvæðri umfjöllun um vinnustaðinn, koma í veg fyrir enn eina rógsherferðina um mig og minnka skaða fyrir baráttu félagsmanna okkar. Þetta hefðu þau getað gert með því að bera til baka ofstækisfull orð úr dómgreindarlausri ályktun trúnaðarmanna frá því í sumar sem stjórnarmaður hefur séð sig knúinn að vekja athygli fjölmiðla á. Að bera til baka ásakanir um að ég stundaði ógnarstjórn og aftökur. Svarið var nei, starfsfólk Eflingar telur mjög brýnt og nauðsynlegt að ég sitji áfram undir óleiðréttum ásökunum um allt þetta.“
Sólveig endar færsluna á baráttunótum:
„Ég legg til að við, undirokað fólk af stétt verka- og láglaunafólks, stöndum saman. Ég hvet til þess að við áttum okkur á því að heimurinn sem við lifum í er skakkur, viðsnúinn, bjagaður. Í þessari skekkju hallar alltaf á okkur. Að átta sig á því er fyrsta skrefið. Svo fikrum við okkur áfram saman, eitt skref í einu, stöppum stálinu hvert í annað, vinnum fyrst lítinn sigur, svo annan lítinn og svo stóran. Óhjákvæmilega getum við þurft að stíga skref til baka líka – það er erfitt – en við getum barist áfram og gert þennan skakka heim réttan.“