Óprúttnir aðilar viðast hafa gert sig heimakomna á vefþjóni Virks starfsendurhæfingarsjóðs um hádegisbil í dag og sent pósta á grunlausa viðtakendur með vírus.
Eysteinn Eyjólfsson, forstöðumaður almannatengsla hjá Virk, segir að búið sé að gera viðtakendum svikapóstsins viðvart.
„Við erum búin að setja fyrir það og senda á alla þá sem fengið hafa póst. Þar létum við viðtakendur vita að það eigi að skipta um lykilorð og ekki ýta á hlekkinn sem fylgir póstinum,“ segir Eysteinn við mbl.is og vísar í almenna þumalputtareglu um að gott sé að skipta um lykilorð á pósthólfi sínu eftir að maður hefur opnað viðlíka svikapósta.
Hann segist ekki vita hvað gerðist þegar fólk ýtti á hlekkinn sem fylgdi póstinum, sem sendur var í nafni starfsmanna Virks. Eysteinn segir einungis að hann viti, sem betur fer, ekki til þess að neinn hafi ýtt á hlekkinn, en þó hafi fjölmargir hringt inn og sagst hafa fengið undarlegan póst í nafni fyrirtækisins.