Sjúklingar viti ekki fyrirfram hvað þeir þurfi að greiða

Endurskoða þarf greiðslufyrirkomulag sjúklinga varðandi kostnað við læknisþjónustu og lyf, …
Endurskoða þarf greiðslufyrirkomulag sjúklinga varðandi kostnað við læknisþjónustu og lyf, að mati LÍ. Núverandi kerfi sé flókið og mismuni fólki eftir heilsufari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Læknafélag Íslands lýsir yfir stuðningi við sóttvarnalækni í baráttunni við Covid-19, vilja að fjármagn fylgi sjúklingi og kalla eftir auknu samráði við lækna í stefnumótun innan heilbrigðiskerfisins. 

Nýjar siðareglur voru samþykktar á aðalfundi Læknafélags Íslands fyrir helgi eftir gagngera heildarendurskoðun sem siðfræðiráð LÍ hefur staðið fyrir, undir stjórn Svans Sigurbjörnssonar. Einnig var samþykkt ný stefna og kynnt nýtt skráningarkerfi símenntunar lækna.

Þá voru samþykktar ýmsar ályktanir, fjórtán talsins.

Styðja sóttvarnalækni, vilja nýta ólík rekstrarform og bæta mönnun

LÍ lýsti yfir stuðningi við störf sóttvarnalæknis á tímum Covid-19 og hvetur almenning til að standa áfram með sóttvarnaryfirvöldum.

Félagið telur að marka þurfi stefnu heilbrigðiskerfisins til lengri og skemmri tíma, styrkleika og hagkvæmni ólíkra rekstrarforma þurfi að nýta, fjármagn fylgi sjúklingi og að komandi ríkisstjórn tryggi starfsemi hefðbundinnar læknisþjónustu til að koma í veg fyrir töf á sjúkdómsgreiningum og aðgengi að meðferðarúrræðum.

Nýleg könnun meðal lækna sýni að innan við þriðjungur sérfræðilækna og sérnámslækna telur mönnun fullnægjandi á sinni starfseiningu og einungis þriðjungur lækna á Landspítala telur öryggi sjúklinga ávallt tryggt. Því telur félagið að ráðast verði í þarfagreiningu á mönnun lækna innan allra eininga heilbrigðisstofnana með tilliti til veittrar þjónustu og álags í starfi.

Mótmæla opnum vinnurýmum

LÍ skorar á komandi ríkisstjórn að ljúka byggingu nýs meðferðarkjarna og rannsóknarhúss Landspítala á því kjörtímabili sem var að hefjast. Húsnæði og aðbúnaður standist ekki nútímakröfur.

Í ályktun LÍ er stefnu stjórnenda Landspítala um opin vinnurými, sem víða hafi verið gagnrýnd, mótmælt. Loks er kallað eftir því að í nýjum stjórnarsáttmála verði það forgangsatriði að ljúka byggingu nýs meðferðarkjarna og rannsóknarhúss Landspítalans á kjörtímabilinu og að virkt samráð verði haft við lækna við þarfagreiningu á almennri starfsaðstöðu þeirra.

Þá skorar LÍ á forstjóra Landspítala að endurskoða skipurit spítalans með það að markmiði að búa til sterka þjónustu- og þekkingarstofnun. Vísað er til þess að um síðustu aldamót hafi Landspítalinn verið með hæsta tilvitnanastuðul fimm norrænna háskólasjúkrahúsa, en vermi nú botnsætið.

Kalla eftir löggjöf um refsiábyrgð og nikótín

Félagið vill jafnframt að innleidd verði löggjöf sem taki til refsiábyrgðar  gagnvart starfsfólki í heilbrigðisþjónustu vegna alvarlegra atvika. Brýnt sé að ráðast í umbætur sem tryggi réttarstöðu heilbrigðisstarfsfólks.

Endurskoða þarf greiðslufyrirkomulag sjúklinga varðandi kostnað við læknisþjónustu og lyf, að mati félagsins. Núverandi kerfi sé flókið og mismuni fólki eftir heilsufari. Sjúklingar viti ekki fyrirfram hvað þeir þurfi að greiða en slíkt kerfi geti latt fólk til að leita nauðsynlegra lækninga og lyfjakaupa.

Þá var einnig samþykkt ályktun um að setja þurfi skýrar reglur um nikótínvörur, en þær ættu ekki að vera aðgengilegar einstaklingum undir lögaldri. Félagið leggst gegn auknu aðgengi að áfengi  og skorar á stjórnvöld að bregðast við áfengisauglýsingum.

Stjórnun og stjórnskipulag sjúkrahúsa á Íslandi þurfa að sæta endurskoðun, að mati LÍ og gerð er krafa um beina aðkomu lækna að stefnumótun í heilbrigðisráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert