Sólveig hafi haldið upplýsingum frá stjórninni

Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður stéttarfélagsins Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður stéttarfélagsins Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Baldvinsson, stjórnarmaður í Eflingu, segir að Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður, hafi haldið aftur lykilupplýsingum fyrir meðstjórnendum í félaginu, til þess að hylma yfir vanlíðan starfsfólks á skrifstofu þess.

Þetta segir hann í yfirlýsingu sem hann sendir fjölmiðlum.

Sem stjórnarmaður vildi Guðmundur fá afhent plagg þar sem dregin var upp dökk mynd af stjórnarháttum Sólveigar. Honum varð ekki ágengt við það og rekur hann það í yfirlýsingu sinni.

Hann segir að stéttarfélögum beri að vera fyrirmynd í vinnuveitendahlutverki sínu og að það hafi Efling ekki verið undir formennsku Sólveigar Önnu.

„Alvarlegur trúnaðarbrestur varð innan  stjórnarinnar þegar Sólveig Anna neitaði að kynna fyrir stjórninni starfslokasamning við fráfarandi skrifstofustjóra í upphafi ársins. Því var ítrekað borið við að þessar upplýsingar kæmu stjórninni einfaldlega ekki við. Aftur var stjórninni neitað um kynningu á ályktun trúnaðarmanna um stjórnunarvanda í júní. Þegar ég gekk á eftir ályktuninni var mér ekki aðeins ítrekað neitað um hana heldur gerð tilraun til að beita mig persónulegri kúgun á grundvelli þess að formaðurinn hefði aðstoðað mína nánustu,“ segir Guðmundur í yfirlýsingu sinni.

Sló á sáttarhönd samstarfsmanna

Guðmundur segist hafa stungið upp á því að fenginn yrði til starfa ráðgjafi sem myndi fara í gegnum starfsemina og leita lausna en því hafi verið alfarið hafnað. Þess í stað hafi verið boðinn hvítþvottur mannauðsstjóra.

Sömuleiðis segir Guðmundur að enginn hafi stutt hann í þeirri vegferð að fá birta yfirlýsingu starfsmanna Eflingar. Svo segir hann að hvorki ASÍ né Starfsgreinasamband Íslands hafi aðstoðað hann á þeirri vegferð.

„Sólaveig Anna hefur hvorki brugðist við áskorun starfsmanna um betrumbætur né gengist við ábyrgð sinni sem formaður. Þvert á móti hefur hún skellt skuldinni á mig og starfsmenn sína. Botninum náði hún svo þegar hún krafðist þess að starfsmenn veldu á milli þeirra sjálfra og hennar á starfsmannafundi síðastliðinn föstudagsmorgun. Í kjölfarið sló hún í síðasta sinn á sáttarhönd starfsmannanna.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka