Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir það hafa komið honum á óvart að Sólveig Anna Jónsdóttir hafi ákveðið að segja af sér formennsku í stéttarfélaginu Eflingu.
„Þetta kemur verulega á óvart og voru sláandi fréttir,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is. Nú þurfi að fara yfir stöðuna á sameiginlegum vettvangi.
„Við gefum okkur tíma til að melta þetta og greina þessa stöðu sem komin er upp innan hreyfingarinnar sem heild og það verður þá væntanlega gert á vettvangi Alþýðusambandsins.“
Hann segir málið vissulega ekki snerta VR beint en það þurfi að ræða stöðuna sem komin er upp á þessum sameiginlega vettvangi. „Ég reikna með að þetta verði rætt á næsta miðstjórnarfundi, þessi staða,“ segir Ragnar, en hann og Sólveig hafa setið saman í miðstjórn Alþýðusambandsins (ASÍ), hún sem 2. varaforseti en hann sem 3. varaforseti.
Ragnar ítrekar að um sé að ræða óvænt stórtíðindi. „En hvað þetta þýðir síðan verður að koma í ljós. Þetta er næststærsta stéttarfélag landsins og það sem gerist þar inni það skiptir máli.“
Aðspurður telur hann svona átök ekki koma til með að skaða samstöðu innan hreyfingarinnar. En þrátt fyrir átök og skoðanaskipti í gegnum tíðina hafi verkalýðshreyfingin sýnt að hún standi saman þegar þarf á að halda. Hann telur ekki að þar verði nein breyting á.