Hjónin á Ökrum á Snæfellsnesi urðu fyrir því undarlega atviki að hvalbeinagrind sem lá á Hellnum, sandi í landi þeirra, hvarf í vikunni.
Beinagrindin var vel uppi í landi og biðu hjónin eftir því að beinagrindin hreinsaðist almennilega svo að hægt væri að taka hana í heilu lagi koma fyrir á góðum stað til sýnis og fróðleiks.
Ólína Guðlaugsdóttir á Ökrum greinir frá beinagrindarstuldinum á facebook síðu sinni. Þar segir hún að staðurinn þar sem beinagrindin lá sé ekki í alfaraleið og að honum liggi ekki vegur og því þarf að aka yfir tún og nokkra ófæru til að komast á farartæki.
Í samtali við mbl.is segist Ólína ekki hafa vitað um hvers konar hval var að ræða en að hræið og síðar beinagrindin hafi legið á landinu þeirra í á þriðja ár.
„Við höfðum hann þarna til að láta hann rotna niður. Þetta var orðin tiltölulega hrein beinagrind,“ segir Ólína.
„Svo bara hefur einhver komið að tekið hana alla,“ bætir hún við. Ljóst sé að hvalrekinn falli til í hennar landi og að beinagrindin séu einskonar nytjar sem fylgi landinu.
„Þetta er svolítið spælandi. Það hefði verið skemmtilegt að koma þessu upp þar sem beinagrindin var heilleg. Þetta er bara þjófnaður,“ segir Ólína og segist lýsa eftir beinagrindinni, hafi einhver orðið var við þetta.
Þá segir á facebook-síðu Ólínu að hún geri ráð fyrir að hún þurfi að takmarka óviðkomandi umferð um svæðið, bæði akandi og gangandi, enda hafi verið farið langt inn á land hennar.