Til greina kemur að beina umferð um Oddskarðsgöng eftir að steypa hrundi úr loftinu á Norðfjarðargöngum í morgun.
„Það er verið að skoða það,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
Hann segir að einhvern tíma í viðbót gæti tekið að lagfæra Norðfjarðargöng. „Það þarf að losa það sem er laust og setja nýja sprautusteypu með boltum og neti til að halda öllu eins og það á að vera.“
Spurður segir hann ekki rétt að vörubíll hafi rekist í loftið, eins og blaðamanni hafði borist til eyrna.
Norðfjarðargöng komu í stað Oddskarðsganga, sem eru einbreið, árið 2017.
Uppfært kl. 15.53:
Fram kemur í færslu lögreglunnar á Austurlandi á Facebook að hugsanlega verði umferð hleypt á aðra akreinina í Norðfjarðargöngum.
Uppfært kl. 16.09:
Vegurinn um Oddskarðsgöng verður opnaður von bráðar, að sögn Vegagerðarinnar.
Norðfjarðargöng: Göngin verða lokuð í óákveðinn tíma. Unnið er að opnun vegarins um Oddskarðsgöng og mun hann opna innan tíðar. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) November 1, 2021