Von á yfirlýsingu frá Guðmundi Baldurssyni

Kröfuganga á baráttudegi verkalýðsins 1. maí.
Kröfuganga á baráttudegi verkalýðsins 1. maí. mbl.is/Árni Sæberg

Von er á yfirlýsingu frá Guðmundi Baldurssyni, stjórnarmanni í Eflingu, þar sem hann mun segja sína hlið á sviptingum innan stjórnarinnar. 

Þetta segir Guðmundur í samtali við mbl.is. 

Hann segir að hann hafi einn staðið uppi í hárinu á Sólveigu Önnu Jónsdóttur, sem tilkynnti um afsögn sína úr embætti formanns Eflingar seint í gærkvöldi. 

„Ég stóð einn í þessu við Viðar og Sólveigu og stjórnina,“ segir Guðmundur en vill lítið tjá sig þar til hann hefur gefið út yfirlýsingu sína, sem hann vonar að birtist uppúr hádegi. 

Segir starsfólkið hafa svipt hana baráttutólunum

Sólveig Anna skrifaði langa yfirlýsingu í gær þar sem hún rakti ástæður þess að hún segði af sér embætti formanns. Ástæða þess er plagg sem trúnaðarmenn starfsfólks á skrifstofu Eflingar skrifaði þar sem meintri ógnarstjórn Sólveigar er lýst. Hún er meðal annars sökuð um að segja fólki upp fyrirvaralaust og halda úti eins konar aftökulista. 

Þessu vísar hún þó á bug og segir starfsfólk Eflingar hafa hrakið sig úr embætti, sem henni þykir miður. Þannig hafi starfsfólk á skrifstofu stéttarfélagsins svipt hana vopnum í baráttu sinni fyrir kjörum láglaunastétta. 

Sólveig Anna Jónsdóttir tilkynnit um afsögn sína sem formaður verkalýðsfélagsins …
Sólveig Anna Jónsdóttir tilkynnit um afsögn sína sem formaður verkalýðsfélagsins Eflingar seint í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig benti einnig fingrum að áðurnefndum Guðmundi og sagði að honum væri uppsigað við félagið og sagði hann hafa farið af stað með klögunarherferð eftir að fréttist af yfirlýsingu í nafni starfsmanna Eflingar. Hann hafi viljað ólmur fá að vita efni yfirlýsingarinnar til þess að glöggva sig á ásökununum, sem þar eru bornar á hendur formanninum. 

Þessu lýsir hann fyrir mbl.is og segir að hann hafi einungis vilja sjá þetta umrædda skjal. búast má við því að hann reki þetta nánar í yfirlýsingu sinni síðar í dag. 

Blaðamenn mbl.is hafa ítrekað reynt að ná tali af bæði Sólveigu Önnu og Viðari Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Eflingar, í dag án árangurs. Þá hafa þeir stjórnarmenn Eflingar, sem mbl.is hefur reynt að ná í, ekki svarað símtölum, að undanskildum Guðmundi Baldurssyni.

Uppfært kl. 11:02

Stjórnarmenn, sem mbl.is hefur reynt að ná tali af í dag, hafa nú svarað í símann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert