73. þing Norðurlandaráðs sett í Kaupmannahöfn

Þing Norðurlandaráðs var sett í dag.
Þing Norðurlandaráðs var sett í dag. Norðurlandaráð/Magnus Fröderberg

73. þing Norðurlandaráðs var að hefjast nú fyrir stundu í Kristjánsborgarhöll í Danmörku. Það er haldið nú á hefðbundinn máta á ný, en þingið í fyrra var haldið með rafrænum hætti vegna heimsfaraldursins. 

Ýmislegt er á döfinni á þinginu, en helsta umræðuefni leiðtogafundar þingmanna Norðurlandaráðs og norrænu forsætisráðherranna er: Hvaða lærdóm geta Norðurlönd dregið af kreppunni sem kórónuveiran hefur valdið og hvernig verður samstarfið eflt upp frá þessu?

Varnar- og öryggismál, einkum þau er snúa að svonefndu samfélagslegu öryggi munu verða í fararbroddi, en Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, er gestur fundarins og mun hann ávarpa þingið á morgun. 

Fulltrúar Íslands á þingi Norðurlandaráðs að þessu sinni eru þau Guðmundur Ingi Kristinsson, Oddný G. Harðardóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir. Willum Þór Þórsson situr einnig fundinn sem forseti Alþingis, en norrænir þingforsetar munu funda í dag og á morgun. Að auki situr Bryndís Haraldsdóttir í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins, sem fundar með forsætisnefnd þingsins á morgun. 

Þá eru ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra einnig á fundinum, en Sigurður Ingi er jafnframt samstarfsráðherra Norðurlanda fyrir Íslands hönd. Von er á Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra á fundinn eftir að loftslagsráðstefnunni í Glasgow lýkur. 

Hér má sjá beint streymi frá fundi þingsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert