Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af einstaklingi í gær sem grunaður var um sölu og dreifingu fíkniefna. Fundust meðal annars hnúajárn, hnífur, kannabisefni í söluumbúðum og verkfæri til undirbúnigns sölu í fórum hans. Viðkomandi hefur játað eign sína á framangreindum vopnum og efnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu.
Þá urðu tvö umferðaróhöpp á Grindavíkurvegi um helgina, engan sakaði. Hafði ökumaður misst stjórn á bifreið sinni í hálku með þeim afleiðingum að hann hafnaði utan vegar. Önnur bifreið valt á veginum og hafnaði á vegriði. Í öðru tilfelli hafði bifreið verið ekið út af Reykjanesbraut og hlaut hún miklar skemmdir.
Þá hafa nokkrir verið kærðir fyrir hraðakstur undanfarna daga og fáeinir teknir úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur og/eða vegna bílprófsleysis.