Gera ráð fyrir taprekstri í borginni 2020 til 2022

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frum­varp að fjár­hags­áætl­un Reykja­vík­ur­borg­ar fyr­ir árið 2022 og fimm ára áætl­un 2022-2026 verður lagt fram í borg­ar­stjórn í dag kl. 14.00. Áætl­un­in ger­ir ráð fyr­ir að rekstr­arniðurstaða A-hluta verði nei­kvæð árin 2020 til 2022.

Fram kemur í tilkynningu frá borginni að það megi rekja til efnahagskreppunnar og magnaukninga einkum í velferðarþjónustu vegna aukinna skuldbindinga af hálfu ríkisins sem lagðar eru á sveitarfélög með lagasetningu og reglugerðum án þess að tekjustofnar séu styrktir.

Frá og með árinu 2022 er gert ráð fyrir batnandi rekstrarniðurstöðu sem skýrist m.a. af aðgerðaráætlun til næstu fimm ára sem á að hafa jákvæð áhrif á bæði tekjur og útgjöld borgarinnar.

Sé litið til höfuðborgarinnar þá hefur almennt atvinnuleysi aukist mikið undanfarin 2 ár en hefur þó minnkað jafnt og þétt frá því í febrúar 2021. Meðalatvinnuleysi var 9% árið 2020 en mældist 5,8% í september 2021. Þrátt fyrir spá um að hagvöxtur glæðist á þessu og næstu árum verður atvinnuleysi þó áfram nokkuð hátt sögulega séð.

Borgin muni vaxa úr Covid vandanum

„Reykjavík mun vaxa út úr þeim vanda sem Covid skilur eftir sig," er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í tilkynningunni.

„Niðurstöður eru í samræmi við Græna planið sem lagt var fram í fyrra og er sýn borgarinnar til skamms og lengri tíma. Grænum fjárfestingum hefur verið flýtt, við bætum sérstaklega við viðhaldsfé í skóla- og frístundahúsæði. Verður 25-30 milljörðum varið til þeirra næstu 5-7 ár. Það dugir til að vinna upp það viðhald sem sparað var á árunum eftir hrun. Grunnskólinn verður einnig betur fjármagnaður á grunni nýs úthlutunarlíkans og velferðarsvið fær fjármuni til að mæta áskorunum og aukinni þjónustu. Borgin er að sækja fram og næsti áratugur verður áratugur Reykjavíkur.“ er enn fremur haft eftir borgarstjóra.

Fram kemur í tilkynningu að lögð verði fram eftirfarandi aðgerðaráætlun til að tryggja að markmiðum fjármálastefnu verði náð:

  1. Ná fram 1% hagræðingu á ári á launakostnað í gegnum aðhaldsaðgerðir og stafræna umbreytingu á tímabilinu 2022-2025.
  2. Einungis verði verðbættar samningsbundnar skuldbindingar og hagræðingu náð í rekstri með miðlægum innkaupum og aðhaldsaðgerðum á tímabilinu 2022-2025
  3. Haldið verði áfram með vinnumarkaðsaðgerðir fram eftir árinu 2022 með það að markmiði að skapa störf fyrir einstaklinga sem eru á fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbótum.
  4. Stuðlað verði að bættri nýtingu húsnæðis með aukinni samnýtingu.
  5. Tryggja óhindrað framboð íbúða og húsnæðis með skipulegri þróun nýrra hverfa sem laðar að íbúa og eflir tekjustofna.
  6. Leitað verði samninga við ríkið um leiðréttingu á framlögum vegna lögbundinna verkefna, einkum vegna þjónustu við fatlað fólk.
  7. Fjármagnsskipan fyrirtækja borgarinnar verði endurskoðuð.
  8. Farið verði í aðgerðir til að bæta skattskil m.a. í samstarfi við ríkið.

Nánar má lesa um málið hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert