Bæjarstjórn sveitarfélagsins Hornafjarðar hafnar því alfarið að hafa falsað gögn vegna ráðningar umhverfis- og skipulagsstjóra árið 2019 en getur að öðru leiti ekki tjáð sig um málsatvik.
Þetta segir Ásgerður Kristín Gylfadóttir, formaður bæjarráðs Hornafjarðar, í samtali við mbl.is og gefur þá skýringu að skaðabótamál hefur verið höfðað gegn sveitarfélaginu vegna ráðningarinnar og ekki sé unnt að tjá sig um málið á meðan málið sé í rannsókn og í ferli fyrir dómsstólum.
Maður sem sótti um starf umhverfis- og skipulagsstjóra, og kom til greina í ráðningaferli en hlaut ekki ráðningu, setti sig í samband við Mannlíf nafnlaust og sakaði bæjarstjórnina um að hafa falsað skjöl í hæfnimati svo að ekki þyrfti að ráða sig.
Birtir hann, máli sínu til stuðning matskvarða Capacent á umsækjendunum tveimur á mismunandi stigum matsferilsins. Bendir á að síðar í ferlinu hafi mat á menntun konunnar verið hækkað og kallar það berum orðum skjalafals.