Kaupmáttur háskólamenntaðra hefur aukist talsvert minna en kaupmáttur annarra hópa frá árinu 2019.
Launavísitalan hækkaði allt að tvöfalt meira hjá láglaunahópum innan ASÍ og BSRB en launavísitala háskólamenntaðra með millitekjur hjá BHM og Kennarasambandi Íslands.
Í tilkynningu frá BHM kemur fram að hætt sé við að aukning kaupmáttar hjá háskólamenntuðum verði að engu á næstu misserum ef verðbólga haldi áfram að aukast. BHM lýsir yfir þungum áhyggjum af þessari þróun.
Samkvæmt nýrri skýrslu kjaratölfræðinefndar hækkaði launavísitalan á opinberum markaði á tímabilinu mars 2019 til júní 2021 um 24-43% hjá félagsmönnum ASÍ og BSRB, en um 15-22% hjá BHM og KÍ.
Hækkanir á almennum markaði voru ívið minni, eða 17-20% hjá ASÍ og BSRB samanborið við 15% hjá BHM. Munurinn er mestur hjá Reykjavíkurborg þar sem hækkanir hjá ASÍ voru 43% eða tvöfalt meiri en hækkanir hjá BHM og rúmlega tvöfaldar á við hækkanir hjá KÍ. Munurinn liggur að mestu í mismunandi áhrifum krónutöluhækkana eftir launastigi sem og styttingu vinnuvikunnar.
Kaupmáttaraukning meðal háskólamenntaðra hjá BHM var á bilinu 5 til 10% á tímabilinu 2019 til 2021 ef aðeins er horft til launabreytinga, þ.e. án áhrifa styttri vinnutíma.Á sama tíma mældist kaupmáttaraukning félagsmanna ASÍ 8-27%. Fari verðbólga hækkandi á næstunni er hætt við að kaupmáttaraukning háskólamenntaðra eftir kjaralotuna þurrkist út, segir í tilkynningunni.
Á tímabilinu 2010 til2019 jókst kaupmáttur atvinnutekna meðal háskólamenntaðs fólks á aldrinum 25-34 ára um 14-24% en mismunandi eftir stigi háskólamenntunar. Á sama tíma jókst kaupmáttur meðal grunnskóla- og framhaldsskólamenntaðra á sama aldri um 36-40%, eða nær tvöfalt meira.
„BHM lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri þróun sem orðið hefur í kjörum háskólamenntaðra síðustu ár. Mismunandi áhrif krónutöluhækkana á launahækkanir eftir launastigi í kjarasamningslotunni 2019-2021 hafa komið verulega niður á hvata ungs fólks til að mennta sig. Að auki hafa lágtekjumiðaðar skattkerfisbreytingar á síðasta kjörtímabili minnkað hvatann til menntunar enn frekar. Ljóst er að vanmat menntunar á Íslandi er orðin sérstök efnahagsleg áskorun,“ segir í tilkynningunni.