Hólmfríður María Ragnhildardóttir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mælir með því að þeir sem hafa fengið boð í örvunarskammt með bóluefni gegn Covid-19, fari fyrst í þá bólusetningu áður en þeir fari í inflúensubólusetningu. Að minnsta kosti 14 dagar verða að líða á milli sprautnanna.
Í gær var opnað fyrir almennar bólusetningar við inflúensu á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og geta allir mætt án tímapöntunar. Á sama tíma hafa margir fengið boð í Covid-19 örvunarskammt.
Í smáskilaboðum sem hafa borist þeim sem fengu boð í örvunarskammt kemur fram að tvær vikur verði að líða á milli bólusetninga. Hafa þá vaknað upp spurningar um hvort það hafi áhrif hvor bólusetningin farið er í fyrst.
Að sögn Þórólfs ætti það í raun ekki að skipta máli hvor sprautan kemur á undan. Hins vegar mælir hann með því að fara fyrst í örvunarskammtinn í ljósi þess að töluverð uppsveifla er á kórónuveirusmitum í landinu. Hins vegar er inflúensan ekki farin að greinast. „Þannig ég tel að það sé skynsamlegra að fara á undan í Covid-sprautu.“