Ríkisútvarpið gagnrýnt fyrir „drottningarviðtal“

Þórir Sæmundsson í viðtali Kveiks.
Þórir Sæmundsson í viðtali Kveiks. Skjáskot/Ríkisútvarpið

Umfjöllun Kveiks, fréttaskýringarþáttar ríkisútvarpsins, hefur vakið töluverða athygli í kvöld. Þar var rætt við Þóri Sæmundsson leikara, sem sagt var upp störfum í Þjóðleikhúsinu árið 2017 vegna kynferðislegs áreitis.

Í samtali við ríkisútvarpið segist Þórir vera „í vonlausri stöðu“. Hann hafi sótt um 200-300 störf síðan hann var rekinn úr leikhúsinu, en ekkert þeirra fengið. Honum hafi þá verið sagt upp eftir skamman tíma í þeim verkefnum eða störfum sem hann þó hafi fengið.

Þannig segist hann þrisvar hafa misst vinnu eftir ráðningu, bara vegna þess að nafn hans hafi verið slegið inn í leitarvél á netinu. 

„Það eru sömu forsendur í þessi þrjú skipti,“ hefur ríkisútvarpið eftir Þóri. „Við getum ekki haft þig í þessu. Út af ástæðum.“

„Það er af því að fyrsta síða á Google setur mig fram sem eitthvert skrímsli.“

Myndasending á stúlku

Einblínt er á myndasendingu Þóris af kynfærum sínum til ólögráða stúlku. Gamlar fréttir af því geri það að verkum að hann fái hvergi atvinnu.

„Segja má að Þórir hafi ekki átt sér viðreisnar von síðan,“ segir í umfjöllun ríkisútvarpsins.

Haft er eftir honum að iðulega hafi það gerst, að konur sendu honum skilaboð eftir sýningar. Hann hafi oft svarað þeim og stundum mælt sér mót við þær.

Þórir hafi svo fengið skilaboð á seinni hluta ársins 2016. Þau hafi hljómað á þá leið að þar færu tvær stelpur sem langaði „að eiga kvöldstund með Hróa hetti“. Þær hafi sagst vera 18 ára.

Þær ekki fórnarlömb

„Svo var þetta eitthvað fram og til baka,“ er haft eftir Þóri. Síðan hafi hann fengið sendar nektarmyndir af stelpunum, án þess að andlit þeirra sæjust.

„Ég beit á agnið,“ fullyrðir Þórir. Hann hafi endað á að senda nektarmynd af sjálfum sér. „Og þá kom bara um hæl: Náðum þér!“

Þórir segir að stúlkurnar hafi þá sagt honum að þær væru 15 ára. Hann hafi þá sagt við þær að þær hafi ekkert náð honum. Þær hefðu stofnað til samskiptanna við hann og í þokkabót logið til um aldur.

„Hvernig eruð þið einhver fórnarlömb í þessu?“ segist hann hafa svarað. „Ég myndi skilja það ef ég hefði sem fullorðinn maður viljandi orðið mér úti um Snapchat-ið hjá ykkur til þess að senda nektarmyndir af mér til ykkar, það er allt annað mál.“

Óviðeigandi skilaboð

Einnig er vikið að því að Þórir telji víst að hann hafi gengið of nærri samstarfskonum sínum í Borgarleikhúsinu þegar hann lék í söngleiknum Mary Poppins árið 2015.

„Þarna er ég enn þá í neyslu og er svolítið ruglaður á því og er að vinna með mörgum ungum konum.“ Kveðst hann hafa fengið tiltal frá leikstjóranum eftir að ein þeirra kvartaði yfir skilaboðum frá honum.

„Það voru ekki nektarmyndir eða eitthvað svoleiðis, en óviðeigandi skilaboð.“

Huldumaður á Twitter

Fram kom í umfjöllun Vísis árið 2017 að Þóri hefði verið vikið frá störfum í Þjóðleikhúsinu eftir að hafa sent typpamynd af sér til samstarfskonu í leikhúsinu á menntaskólaaldri. Áður hafi leikhúsinu borist nafnlaus ábending um að fimmtán ára stúlka hefði fengið ósiðlegar myndir frá Þóri í skilaboðum á Twitter.

Gekkst hann við því að hafa sýnt af sér ósæmilega hegðun og áreitt konur.

Aftur kom Þórir fyrir kastljós fjölmiðla þegar í ljós kom að hann hafði haldið úti Twitter-reikningi undir huldunafni, en þar fór hann mikinn.

Ekki við hæfi rannsóknarblaðamanna

Eins og áður sagði hefur umfjöllun Kveiks vakið töluverða athygli. Þá ef til vill helst gagnrýni fyrir að ræða ekki við aðra en Þóri í þættinum.

Tekið var þó fram að þau svör hefðu fengist, að stúlkan vildi ekki ræða við Kveik í trúnaði til að hægt væri að fá hina hliðina á sögunni og staðfesta sannleiksgildið.

En einnig hefur verið gagnrýnt að ekki hafi verið fjallað um málið út frá faglegri hliðum en sjónarhóli geranda. Umfjöllunin er til að mynda sögð ekki vera við hæfi rannsóknarblaðamanna.

Margir hafa orð á því að um svokallað drottningarviðtal hafi verið að ræða.

Vakin er athygli á upplýsingasíðu 112 um ofbeldi.

María Björk, vinsæll Twitter-grínisti, er ein þeirra sem vekur máls á umfjöllun Kveiks.

Sóley Tómasardóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar, bregst einnig við:

Á öðrum stað segir Sóley enn fremur: „Ég trúi ekki öðru en að Kveikur muni halda áfram að fjalla um þessi mál út frá fleiri og faglegri hliðum en sjónarhóli geranda sem segist margítrekað vera fórnarlamb í málinu.“

Hlaðvarpsstjórnandinn Edda Falak leggur út frá umfjölluninni og segir Aldísi Schram, dóttur Jóns Baldvins Hannibalssonar og Bryndísar Schram, eiga skilið drottningarviðtal.

Hrafn Jónsson, áður vinsæll pistlahöfundur á Kjarnanum, spyr hvað hafi verið reynt að segja með umfjöllun þáttarins.

Þórunn Ólafsdóttir, sem meðal annars hefur vakið athygli vegna baráttu sinnar fyrir réttindum flóttamanna og innflytjenda á Íslandi, vísar til umræðu í samfélaginu undanfarna mánuði um starfsmannahald á Stöð 2.

Meðal annars hefur verið gagnrýnd sú ákvörðun að hafa Björn Braga Arnarson í hlutverki spyrils í spurningaþætti, en Björn hefur áður orðið uppvís að kynferðislegri áreitni.

Rithöfundurinn Silja Björk segir þáttinn ekki við hæfi rannsóknarblaðamanna:

Ung kona segir einnig frá sínum samskiptum við Þóri og hefur frásögnin vakið athygli:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka