„Hverjum verður slátrað næst?“ spyr Sigurður G. Guðjónsson í stöðuuppfærslu á samfélagsmiðlinum Facebook í morgun þar sem hann vekur athygli á aðför „ofstækiskvenna“ gegn einstaka karlmönnum sem hafa verið merktir ofbeldismenn og nauðgarar. Segir hann aðferðir þeirra og atlögur vekja óhug.
„Með skipulögðum hætti er komið á framfæri fullyrðingum um að nafngreindir karlmenn séu ofbeldismenn og nauðgarar, þó ekkert liggi þar að baki, engin kæra, enginn dómur, ekkert. Hvíslið á netinu á að duga til að slaufa þeim, útskúfa og koma í veg fyrir að þeir hafi í sig og á,“ segir í færslunni.
Telur Sigurður siðferði kvennanna og sannleiksást á mjög lágu plani og segir hann gengið frá hverjum þeim sem leyfi sér að efast um „róg og illmælgi þeirra“ með níði, aðdróttunum og hreinum óþverraskap. Mætti sennilega flokka það sem andlegt ofbeldi, bætir hann við.
Í færslunni nafngreinir Sigurður 55 konur sem hann segir meðal annars tilheyra „misformlegum samtökum eða hópum eins og Öfgum, Bleika fílnum og Aktívisma gegn nauðgunarmenningu.“
Kemur þá ekki á óvart að þar megi finna nöfn á borð við Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur, Tönju M. Ísfjörð og Ólöf Töru, sem hafa verið áberandi í umræðunni um KSÍ málið. Sjálfur hefur Sigurður verið áberandi í þeirri umfjöllun en hann var kærður til lögreglu, persónuverndar og Úrskurðarnefndar lögmanna, fyrir að hafa birt rannsóknargögn á samfélagsmiðlum úr því máli. Hefur hann þá áður deilt hugrenningum sínum á KSÍ málinu.
Ef marka má athugasemdirnar við færslurnar virðast margar konur stoltar af því að hafa verið nafngreindar í færslunni og vilja þá enn fleiri að hann bæti sér við á þennan lista. „Og mér! Endilega bættu mér við. Gangi þér vel að þagga niður í okkur,“ skrifar ein.
Sigurður segir baráttukonurnar ekki veigra sér við að hafa áhrif á rekstur þeirra sem þær merkja sem ofbeldismenn og nauðgara með því að hvetja til viðskiptabanns.
„Þannig hefur nú um nokkra hríð markmiðið verið að ganga frá litlu fyrirtæki manns sem kallaður er nauðgari og ofbeldismaður. Gefum Sölku Sigmars orðið í þeirri baráttu ,,Getum við látið vefjuna fara á hausin plís”. Undir þetta er tekið af öðrum og bætt um betur og eitt meintra fórnarlamba látið koma fram hjá Eddu Falak til að draga upp sem dekksta mynd. Engu skiptir fyrir umræðuna þó fórnarlömb ofstækiskvenna þessara hafi verið sýknuð af öllum sökum.“
Auk þess vekur Sigurður athygli á að hugtakið nauðgunarmenning, sem hefur verið áberandi í umræðunni, hafi ekki verið skilgreint af þessum valkyrjum.
„[E]nda henta merkingar orða eða skilgreiningar hugtaka illa málstað þeirra og baráttuaðferðum. Þar helgar tilgangurinn alltaf meðalið,“ segir í færslunni.
Þá hefur verið bent á í athugasemdum að ekki sér rétt með farið að nauðgunarmenning sé illa skilgreint hugtak og taki það innan við mínútu að fletta því upp á veraldarvefnum. Hefur honum meðal annars verið beint á vefsíðuna sjúkást þar sem hugtakinu er gert skil.
Að lokum kveðst Sigurður gera sér grein fyrir því að konur þessar njóti tjáningarfrelsis. Hins vegar sé það sett mörk af reglum um friðhelgi einkalífs og það ber þeim að virða, vilji þær vera samkvæmar sjálfum sér í baráttunni fyrir betri heim.
„Persónuvernd hlýtur að skoða hvort að hópar eins og Bleiki fíllinn, Öfgar, og Aktívistar gegn nauðgunarmenningu eða einstakir meðlimir þeirra stundi ólögmæta vinnslu persónuupplýsinga.