Segir að Guðmundur eigi að skammast sín

Sólveig Anna Jónsdóttir.
Sólveig Anna Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður Eflingar, vill að Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í félaginu, skammist sín fyrir að segja að Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, eigi að víkja til hliðar.

Í lok stöðuuppfærslu á Facebook segir Sólveig Anna þó að hún viti til þess, vegna fenginnar reynslu, að Guðmundur kunni ekki að skammast sín.

Guðmundur var gestur Kastljóss í gær og er Sólveig að vitna til orða hans, en í þættinum sagði hann meðal annars að Agnieszka Ewa Ziólkowska ætti að víkja úr embætti varaformanns.

„Agnieszka er valin af félögum sínum til að gegna stöðu varaformanns. Það hefur hún með sóma. Áður var hún trúnaðarmaður árum saman og barðist gegn launaþjófnaði og óboðlegum aðstæðum, svo sem engri salernisaðstöðu. Hún er fyrsta konan af pólskum uppruna sem gegnir svo mikilvægu hlutverki í íslenskri verkalýðshreyfingu. Hún er fyrsti raunverulegi fulltrúi aðflutts verkafólks í verkalýðs-baráttunni. Hún þekkir allt það svívirðilega rugl sem viðgengst gagnvart aðfluttu verkafólki á eigin skinni. Allt. Hún hefur, ásamt mér og þeim í stjórn sem raunverulega hafa viljað bæta hag alls vinnuaflsins, ekki bara hag þeirra sem líta út og tala eins og þeir sjálfir, leitt stórkostlega umbóta vinnu innan félagsins þegar kemur að því að tryggja að okkar aðfluttu félagar eigi rétt á nákvæmlega sömu þjónustu og þau okkar sem fædd eru hér,“ segir Sólveig á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert