Segir tilkynningum um byrlun ólyfjanar ekki hafa fjölgað

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Arnþór

Tilkynningum um byrlun ólyfjanar á skemmtistöðum hefu ekki fjölgað undanfarið. Aukin fjölmiðlaumfjöllun getur þó leitt til þess að lögreglu berist fleiri tilkynningar, sem er hið besta mál. Þetta segir Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

„Við erum kannski ekki komin með tilkynningar til okkar svo að við getum sagt að þetta sé faraldur en svo er líka spurning hvað faraldur er. En við vitum svosem um atvik sem gæti mögulega verið byrlun,“ segir hún í Morgunútvarpi RÚV.

Lögreglan í samstarfi við bráðamóttökuna

Lögreglan hafi í síðustu viku hafið samstarf við bráðamóttöku um hvernig sé best að bregðast við málum af þessu tagi, að sögn Höllu.

Við erum að móta verklag til þess að tryggja rétta sýnatöku og varðveislu á sýnunum með það fyrir augum að ef það kemur tilkynning til okkar að þá getum við farið áfram með málið og rannsakað það.“

Þá segir hún bráðamóttökuna einnig hafa verið í samstarfi við 112.is, þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um byrlun ólyfjanar, hvernig möguleg byrlun lýsir sér og hvernig bregðast eigi við ef grunur leikur á um að byrlun hafi átt sér stað.

„Það er rosalega mikilvægt að ef manni grunar að maður hafi orðið fyrir byrlun að maður leiti á bráðamóttöku til þess að tryggja sýnatöku og að hægt sé að halda áfram með málið.“

Það sem gerist erlendis geti komið til okkar

Ekkert sérstakt ákvæði sé í hegningarlögum um byrlanir ólyfjana, að sögn Höllu. Í þeim lögum séu þó að finna ákvæði um hættubrot. Það ákvæði nái yfir mál þar sem byrlun ólyfjanar leiðir til þess að einstaklingur geti ekki bjargað sjálfum sér og því sé möguleiki að kæra fyrir það. Jafnframt segir hún að sakfellt hafi verið í nauðgunarmálum hér á landi þar sem grunur lék á um að brotaþola hafi verið byrlað ólyfjan. 

Spurð segist Halla ekki vita til þess að einstaklingum hafi verið byrlað ólyfjan með sprautum hér á landi, líkt og borið hefur á á skemmtistöðum í Bretlandi. 

„Ég hef ekki heyrt um það, ekki hér nei. En það er bara ofboðslega mikilvægt að vera á varðbergi því það er oft þannig að það sem gerist erlendis getur komið til okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert