Fyrri umræða fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 og fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022-2026 fer nú fram í borgarstjórn Reykjavíkur. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur segir að í upphafi kjörtímabils voru heildarskuldir borgarinnar 299 milljarðar króna sem greiða átti niður samkvæmt sáttmála meirihlutans. Í dag séu skuldirnar komnar yfir 400 milljarða og fara vaxandi.
„Sem og fyrr leggjum við í Sjálfstæðisflokknum til aðhalds- og hagræðingaraðgerðir í rekstri. Við munum leggja til sölu á 49% hlut borgarinnar í Gagnaveitunni og sölu á Malbikunarstöðinni Höfða.
Jafnframt munum við leggja til að auka tekjur borgarinnar með því að skipuleggja strax hagkvæmt byggingarland. Þá viljum við opna fyrir þann möguleika að þeir sem búa í félagslegu húsnæði geti eignast þak yfir höfuðið.“ er haft eftir Eyþóri í tilkynningu.
Eyþór bendir á að í fimm ár áætluninni sé allt að fjörutíu milljarða gat. Hann segir að áætlunin geri ráð fyrir því að skuldir borgarinnar fari vaxandi og verði 453 milljarðar árið 2025.
Inn í þeirri tölu sé hvorki gert ráð fyrir að greiða skuld Orkuveitunnar við Glitni banka upp á 3 milljarða króna, né sé endurnýjun hreinsistöðva skólps sem ætla má að verði í kringum 20 milljarða fjárfesting fyrir sveitarfélagið Reykjavík.
„Í ofanálag er fyrirséð að borgin þurfi að finna lausn á sorpvandamálum sínum vegna alls þess sem hefur farið úrskeiðis hjá GAJA, gas- og jarðgerðarstöðinni en reikna má með því að kostnaður borgarinnar við brennslustöð geti orðið u.þ.b. 10 milljarðar króna,“ er haft eftir Eyþóri.
Hann segir þá að til að bæta gráu ofan á svart sé ekki gert ráð fyrir rekstrarkosnaði borgarinnar vegna borgarlínu, sem á að vera kominn í rekstur á tímabilinu en gera má ráð fyrir að hann verði u.þ.b. 2 milljarðar á ári.
Þá sé einnig vanáætlaður viðhaldskostnaður við félagslegt húsnæði í eigu borgarinnar um u.þ.b. fimm milljarða króna en áætlanir gera ráð fyrir 0,08 prósent á meðan erlendis er gert ráð fyrir 2-3 prósentum í viðhald.