Vegagerðin stefnir á að geta hleypt stærri bílum í gegnum Norðfjarðargöng á klukkutímafresti í stuttan tíma í senn síðar í dag.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að þetta gæti gerst upp úr hádeginu.
Göngunum var lokað í gær eftir að steypa hrundi úr loftinu á göngunum. Í framhaldinu voru Oddskarðsgöng, sem eru einbreið, opnuð fyrir minni bíla.
Að sögn G. Péturs er hreinsunarstarf í gangi í Norðfjarðargöngum og verið að losa steypu úr loftinu á sama stað og hún losnaði í gær.
Spurður hvenær Norðfjarðargöng verða opnuð að fullu á nýjan leik segist hann efast um að það náist í dag. „Við erum frekar að horfa á morgundaginn," segir hann.
Athugið: Norðfjarðargöngin eru lokuð. Gömlu Oddskarðsgöngin hafa verið opnuð fyrir umferð minni bíla. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) November 2, 2021