Þegar svipast er um í helstu nágrannaríkjum og áfangastöðum í beinu flugi frá Íslandi sést að þar er smittíðni víða enn talsvert mikil. Á hinn bóginn er hún að jafnaði ekki ósvipuð því sem gerist hér á landi, svo áhættan þarf ekki að vera meiri.
Eins er hætta á alvarlegum veikindum hjá velflestum miklum mun minni en var, vegna þess að velflestir eru bólusettir. Það á jafnframt við um þorra fólks í þeim löndum, sem flogið er til beint frá Íslandi, en líkt og bent var á í frétt um bólusetningar í blaðinu í gær er hún þar víðast mjög almenn.
Rétt er þó að hafa í huga áður en fólk ráðgerir ferðalög, að innan einstakra ríkja getur smittíðni verið mjög mismikil. Smit á Englandi eru hlutfallslega meira en helmingi fleiri en á Íslandi, þótt tíðnin hafi raunar fallið nokkuð ört í Lundúnum.
Í Bandaríkjunum, sem ferðast má til í næstu viku, er hún hins vegar víðast orðin nokkru lægri á ströndunum og í Chicago en hér á landi, en mjög há í Alaska og talsverð í Minneapolis og Denver. Á Spáni er hún alls staðar orðin mjög lág.