Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undirstrikaði mikilvægi þess að samþætta jafnréttisbaráttuna og loftslagsmál þegar hún ávarpaði COP26 loftslagsráðstefnuna fyrr í dag.
Hún talaði einnig um mikilvægi þess að bregðast við loftslagsvánni sem við stöndum frammi fyrir en var jafnframt vongóð og vísaði meðal annars í orð Andra Snæs Magnasonar, rithöfundar og umhverfissinna, þegar hún vakti athygli á möguleikum okkar að skapa framtíðina.
Í upphafi ávarpsins vakti Katrín athygli á því að sönnunargögnin hefðu aldrei legið jafn skýrt fyrir. Samanlögð markmið Parísarsáttmálans duga ekki til að halda breytingum á loftslaginu innan hættumarka og að þjóðir yrðu að uppfæra þau.
Þá greindi hún einnig frá því að Ísland hefði sett sér metnaðarfyllri markmið sem kveða á um að draga úr losun um 55% fyrir árið 2030, en eldra markmið sagði til um 40%. Þar að auki hefði Alþingi lögfest markmið okkar um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Værum við ein af fáum þjóðum til að gera slíkt. Væri stefnan þá sett á að hætta algjörlega notkun á jarðefnaeldsneyti fyrir miðja öld.
Í ávarpinu sagði Katrín að merki loftslagsbreytinga væru sjáanleg og að við yrðum að bregðast við. „Á Íslandi sjáum við jöklana hopa, við höfum áhyggjur af súrnun sjávar og breytingu á hafstraumum sem gætu haft áhrif á allt sjávarríkið.“
Taldi hún mikilvægt að fá allt mannkynið með í baráttuna enda væri farið að bera á neyðartilfellum víða um heim sem væru beinar afleiðingar loftslagsbreytinga. Sagði hún þá afar nauðsynlegt að konur og stúlkur yrðu með í öllum ákvarðanaferlum.
Katrín sagði þó einnig að miklar framfarir hefðu nú þegar átt sér stað á Íslandi. Sem dæmi nefndi hún að hiti og rafmagn væru úr 100% endurnýjanlegri orku, og að sala og innflutningur á nýorkubílum hérlendis væri með því mesta sem þekktist í heiminum.
Þá kom hún einnig inn á þá spennandi tækniþróun sem er að eiga sér stað hjá íslenska fyrirtækinu Carbfix þar sem að koldíoxíð er tekið áður en það berst í andrúmsloftið og því dælt niður í berglög þar sem það kristallast í kalsít. „Við vonum að þetta sé lítið skref í átt að einhverju stærra. Tækni sem gæti reynst mikilvæg fyrir allan heiminn.“
Katrín talaði því um að mikla von væri að finna og að við mótuðum framtíð okkar á hverjum einasta degi. Vitnaði hún þá í orð Andra Snæs Magnasonar: Tíminn þinn er tími einhvers sem þú þekkir, elskar og mótar þig. Og tíminn þinn er líka tími einhvers sem þú munt þekkja og elska, tíminn sem þú skapar.
„Hans orð eru sönn. Tíminn til að skapa framtíðina er í dag. Ungt fólk er að krefjast aðgerða og við verðum að svara því kalli. [...] Loforð Parísarsáttmálans eru enn á lífi og ég skynja mikinn metnað hér í Glasgow. Það er krefjandi vinna framundan en það getur verið góð vinna.“