Hæstiréttur tók í dag til meðferðar peningaþvættismál Hafþórs Loga Hlynssonar, sem sakaður er að hafa hagnast á margvíslegum brotum allt til ársins 2017.
Talið var hafið yfir skynsamlegan vafa í dómi Landsréttar að hann hefði á umræddum tíma aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum. Sá refsidómur var sá tólfti sem Hafþór hafði hlotið síðan í desember árið 2003, en hann er fæddur árið 1987.
Hæstiréttur samþykkti áfrýjunarbeiðni Hafþórs í byrjun júní, en hann var sakfelldur í Landsrétti og dæmdur til 20 mánaða fangelsisvistar. Hafþór er einna þekktastur fyrir aðild sína að stórfelldum þjófnaði á tölvubúnaði, sem notaður var til að grafa eftir rafmyntinni bitcoin.
Hafþór var handtekinn í maí árið 2017 og í framhaldinu gerð leit á heimili hans. Fann lögreglan þá 1,8 milljónir undir rúmdýnu, en Hafþór sagðist hafa tekið þá upphæð úr banka því hann skuldaði bankanum. Þá fundust einnig talsverðir fjármunir í leynihólfi bak við eldhúsinnréttingu á heimili hans sem og á honum sjálfum.
Dómarar í Hæstarétti vildu í dag skoða hversu langt hægt væri að teygja sig í sakfellingu á grundvelli peningaþvættisákvæða, þrátt fyrir að ekki liggi fyrir af hvers konar brotum Hafþór hagnaðist.
Ákæruvaldið fer fram á dómur Landsréttar verði staðfestur og að refsing yfir Hafþóri verði þyngd. Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir að ef vitað væri hver frumbrotin í málinu hefðu verið, þ.e. hvaða brot Hafþórs fólu í sér ávinning sem síðan var þvættaður, hefði verið ákært fyrir það beint.
„Ef við værum bara að sakfella fyrir fíkniefnainnflutning, sem sagt á einhverju ákveðnu tímabili sem hefði haft í för með sér ákveðinn ávinning, þá væri hægt að refsa mönnum bara fyrir brot á fíkniefnalögum,“ sagði Helgi Magnús við mbl.is að loknum málflutningi í Hæstarétti.
Helgi rakti í dag í þaula tengsl Hafþórs við þekkta leikendur í íslenskum undirheimum. Þannig taldi hann til viðskipti hans við menn eins og Stefán Blackburn og Stefán Loga Sívarsson. Með því vildi hann varpa ljósi á hvernig hann hefði vel getað orðið sér út um illa fengið fé, eins og raun bar vitni.