Beið í 15 ár eftir félagslegu húsnæði

Kvörtun barst til umboðsmanns Alþingis vegna tafa á úthlutun félagslegs …
Kvörtun barst til umboðsmanns Alþingis vegna tafa á úthlutun félagslegs húsnæðis. mbl.is/Golli

Eftir um 15 ára bið fékk íbúi á Seltjarnarnesi loks úthlutað félagslegu húsnæði á vegum bæjarins en kvörtun hafði borist á borð umboðsmanns Alþingis vegna málsins. Telst því nú lokið.

Þetta kemur fram á vef umboðsmanns Alþingis.

Íbúinn hafði upphaflega sótt um félagslegt húsnæði á vegum bæjarins árið 2006. Miklar tafir voru á því ferli og hafði úrskurðarnefnd velferðarmála tvívegis úrskurðað um að sveitarfélagið hefði farið gegn málshraðareglu stjórnsýslulaga.

Lagði nefndin fyrir Seltjarnarnesbæ að hraða afgreiðslunni. Kom þá fram í síðari úrskurði nefndarinnar að:

„Úrskurðarnefndin getur fallist á að skortur á húsnæði valdi töf á úthlutun en að mati nefndarinnar getur það ekki réttlætt bið um ókomna tíð án þess að fyrir liggi einhver áætlun í þeim efnum eða virk upplýsingagjöf til umsækjanda um stöðu hans. Verður þannig að gera þá kröfu til sveitarfélagsins að markvisst sé unnið að lausn í máli kæranda og að gerðar séu ráðstafanir til að hann fái húsnæði eins fljótt og unnt er.

Ekki verður séð að Seltjarnarnesbær hafi unnið sérstaklega í húsnæðismálum kæranda, þrátt fyrir ítrekaðar umsóknir hans um félagslegt húsnæði og úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála frá júní 2020 þar sem lagt var fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og taka afstöðu til réttar kæranda til húsnæðis svo fljótt sem auðið væri.“

Brugðust við eftir að erindi voru send á ráðuneytin

Í svörum Seltjarnarnesbæjar við fyrirspurnum umboðsmanns kom fram að félagslegum íbúðum hefði ekki verið úthlutað frá 2019 og ekki væri gert ráð fyrir fjölgun slíkra íbúða í fjárhagsáætlunum vegna ársins 2021.

Í kjölfarið óskaði umboðsmaður eftir afstöðu félagsmálaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Var þar falist eftir því hvort málið gæti komið til kasta viðkomandi ráðuneytis á grundvelli eftirlitshlutverks þess. 

Seltjarnarnesbæ var sent afrit af öðru erindinu. Í framhaldi af því upplýsti sveitarfélagið að viðkomandi hefði fengið úthlutað félagslegu húsnæði og var málinu þar með lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert