Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður Eflingar, segist hafa verið kölluð „klikkuð kerling“ og „snarbiluð“ af starfsfólki skrifstofunnar. Það hafi aldrei verið viðurkennt þar inni að hún hafi fengið umboð félagsmanna til að „umbreyta þeirri hörmulegu þjónustu sem félagsfólki var boðið upp á og koma henni mannsæmandi horf.“ Þetta kemur fram í facebook-færslu sem hún birti fyrir stundu.
„Á skrifstofum Eflingar var það aldrei viðurkennt að ég væri, sökum þess að ég var kjörin af félagsfólki Eflingar, með umboð til að vekja sofandi risann sem félagið var og breyta því í baráttumaskínuna sem það þurfti að verða. Þurfti að verða vegna þeirra óboðlegu efnahagslegu, félagslegu og vinnustaða-legu aðstæðna sem verka og láglaunafólki var boðið upp á, án þess að við heyrðum nokkru sinni í þeim sem þó þáðu góð laun frá okkur og höfðu allt til alls, lokuð inní einhverskonar skrifstofuvirki, aftengd efnahagslegum veruleika þeirra sem greiddu félagsgjöldin.“
Hún segir verkefni hennar ekki hafa verið tekið alvarlega ekki verið skilningur á því að hún þyrfti vinnufrið. „Einn af þeim „glæpum“ sem ég framdi á skrifstofunni var sá að þegar brjálað var að gera hjá mér og ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum til að sinna öllu, borðaði ég hádegismat inn á skrifstofu minni svo að sá tími nýttist einnig til vinnu. Þegar ég frétti af því að þetta væri illa séð og tekið sem enn ein sönnun á því hver ömurleg ég væri brást ég strax við og reyndi að fremja þennan glæp aldrei aftur. Þetta er aðeins eitt dæmi um það skilningsleysi og virðingarleysi sem ég mætti.“
Þegar hún ávarpaði starfsfólk Eflingar síðastliðinn föstudag hafi hún einfaldlega verð að biðja um þann vinnufrið sem hún hafi hingað til ekki fengið til að halda áfram baráttu sinni. Segist hún meðal annars hafa viljað fá frið til að undirbúa kjarasamningsviðræður á almennum vinnumarkaði og að stytting vinnuvikunnar yrði ekki tekin til baka. „Frið til að berjast fyrir því að stytting vinnuvikunnar væri ekki notuð til að fokka enn meira með verkafólk hjá hinu opinbera (síðustu fregnir herma að nú eigi að fara í að „endurskoða“ styttingu með það fyrir augum að hafa hana af fólkinu sökum þess að hún er svo kostnaðarsöm),“ segir hún í færslunni.
Beiðni um vinnufrið hafi hins vegar verið hafnað af starfsfólki skrifstofu Eflingar. „Ég bað starfsfólk í fullri einlægni um að veita mér hann. Þeirri beiðni var afdráttarlaust hafnað; herferðin inná vinnustaðnum, byggð á ofstæki og andúð í minn garð, skyldi halda áfram, með engan endi í sjónmáli. Því fór sem fór.“