Einn í öndunarvél á Akureyri vegna Covid-19

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri. mbl.is/Sigurður Bogi

Einn sjúklingur liggur á sjúkrahúsinu á Akureyri í öndunarvél með Covid-19. Þetta kemur fram í pistli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknir á Covid.is.

Áður hefur komið fram að 16 liggja inni á Landspítalanum, þar af eitt barn. Fjórir eru á gjörgæsludeild spítalans, þar af tveir í öndunarvél og einn í hjarta- og lungnavél.

Þórólfur segir spá um þróun kórónuveirufaraldursins vera að raungerast. Útbreiðsla smita sé að aukast í kjölfarið á afléttingu takmarkana, auk þess sem fjöldi þeirra sem leggst inn á sjúkrahús alvarlega veikur sé að aukast.

Hann bætir við að um 2% þeirra sem greinast með Covid-19 þurfa á spítalavist að halda og um 60% þeirra eru fullbólusettir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Átak að hefjast í bólusetningum

Þórólfur bendir á að átak sé að hefjast í bólusetningum gegn Covid-19 og að allir 60 ára og eldri verði kallaðir inn í sína þriðju bólusetningu, auk fólks með undirliggjandi ónæmisvandamál og framvarðasveitir.

Einnig er til skoðunar að bjóða öllu fólki örvunarbólusetningu með bóluefni Pfizer. Hún er veitt fimm til sex mánuðum eftir annan skammt.

Þórólfur segir víðtæka reynslu ekki vera komna á örvunarbólusetningu gegn Covid.-19. Mesta reynslan hafi fengist í Ísrael.

„Þar hefur öllum verið boðin örvunarbólusetning með bóluefni frá Pfizer um 5-6 mánuðum eftir bólusetningu númer tvö. Niðurstaða rannsóknar í Ísrael sem birt var nýlega í vísindatímaritinu Lancet sýnir að örvunarbólusetning er um 90% virk til að koma í veg fyrir smit og alvarleg veikindi samanborið við tvær sprautur,“ segir Þórólfur og nefnir að alvarlegar aukaverkanir séu líklega færri eftir þriðja skammt en eftir skammt númer tvö. „Þess ber að geta að alvarlegar aukaverkanir eftir skammt tvö eru mjög fátíðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert