Fjölbrautaskóla Vesturlands lokað vegna stöðunnar

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi.
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi verður lokaður út vikuna vegna kórónuveirusmita og færist kennsla skólans í fjarfundarform út föstudag.

Þetta er tilkynnt á vef skólans.

Þar segir að alvarleg staða sé kominn upp vegna smits á Akranesi og að smitrakning sé í gangi. Smitið er þó ekki sagt upprunið í fjölbrautaskólanum en þrátt fyrir það er gripið til fyrrnefndra aðgerða.

„Í ljósi þessa er gripið til ráðstafana: Nemendur og kennarar í dagskóla FVA eru beðnir um að halda heim frá og með kl. 11.35 í dag og skipt er yfir í fjarkennslu tímabundið: í dag, miðvikudag, og fimmtudag og föstudag. Kennari mun láta nemendur vita nánar um skipulagið í hverjum áfanga fyrir sig. Heimavistarbúar eru beðnir um að halda heim eins fljótt og unnt er,“ segir á vef skólans.

Þá verður Tæknimessu 2021, sem halda átti í fjölbrautaskólanum á morgun, fimmtudag, frestað um óákveðinn tíma.

Um helgina verður staðan metin og næstu skref ákvörðuð, að því er segir í tilkynningunni. Loks eru nemendur beðnir að panta tíma í sýnatöku finni þeir fyrir einkennum veirunnar og hafi þeir verið á fjölmennum viðburðum síðastliðna helgi skulu þeir taka hraðpróf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert