Gætu séð til lands í næstu viku

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra staðfestir í samtali við mbl.is að viðræðum leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna þriggja miði vel áfram og að möguleiki sé á að ríkisstjórn verði mynduð í næstu viku.

Greint var frá því í Fréttablaðinu í morgun að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefði mikla trú á því að flokkarnir nái að mynda ríkisstjórn í næstu viku. 

„Ég get staðfest það að við erum komin mjög langt í okkar samtölum. Búin að fara yfir mjög mörg mál og vinna texta um ýmis svið. Við eigum eftir að ljúka nokkrum málum. Ég get tekið undir það að það gæti séð til lands í næstu viku,“ segir Katrín.

Hún gefur þó fyrirvara um að niðurstöður undirbúningsnefndar sem fer fyrir rannsókn kjörbréfa muni hafa áhrif á hvenær hægt verði að kalla saman þing.

Ekkert ákveðið um útvíkkun

Hingað til hafa formennirnir fyrst og fremst fundað þrír saman án aðstoðarmanna og annarra utanaðkomandi. Spurð hvort þau sjái fram á einhverja breytingu á því fyrirkomulagi svarar hún því neitandi.

„Við höfum ekki haft neinar áætlanir um það en við höfum trúnaðarmenn sem við erum í samskiptum við innan okkar flokka. Það hefur þó ekkert verið ákveðið um neina útvíkkun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert