Staðan á Landspítala er mjög viðkvæm og ef þróun faraldursins heldur áfram með sama hætti og hún hefur gert undanfarna daga gæti þurft að hækka viðbragðsstigið, að sögn Guðlaugar Rakelar Guðjónsdóttur, starfandi forstjóra Landspítala.
Í morgun voru alls 16 inni á spítalanum vegna Covid-19, þar af eitt ungabarn. Voru þá fjórir á gjörgæslu og þrír þeirra í öndunarvél.
„Smitum fer náttúrulega ekki fækkandi. Þegar við útskrifum sjúklinga af göngudeild koma nýir í staðinn. Staðan er mjög viðkvæm og erfið. Við höfum verið að meta það á hverjum degi og stundum tvisvar á dag hvort að það þurfi að setja spítalann á hættustig.“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is að engin formleg vinna væri hafin við gerð minnisblaðs er varðar takmarkanir innanlands, þrátt fyrir að veiran væri að breiða úr sér í samfélaginu.
Spurð hvort hún telji þörf á að grípa til frekari takmarkana innanlands núna segir Guðlaug það ekki hennar að ákveða. Hún kveðst aftur á móti telja mikilvægt að samfélagið reyni að takmarka útbreiðsluna með einhverjum hætti.
„Ég held að það sé bara mjög mikilvægt, hvernig sem það er gert, að draga úr smitum í samfélaginu. Staðan er bara þannig að því fleiri smit í samfélaginu, því fleiri innlagnir. Allt sem hægt er að gera til að draga úr smitum skiptir máli. Svo er annarra að ákveða með herðingar eða ekki. Við höfum ekki þurft að fara í að stiga spítalann en eins og staðan er núna varðandi Covid þá má mjög lítið út af bregða.“
Að sögn Guðlaugar Rakelar var síðasta helgi á bráðamóttökunni einnig mjög þung og er enn verið að vinda ofan af því. Hefur það ekki hjálpað til við að létta undir álaginu.
„Við erum að reyna að manna einingarnar, ekki bara Covid-einingarnar, heldur líka aðrar svo sem eins og bráðamóttökuna eða öldrunardeild. [...] Við erum virkilega að reyna að færa til starfsfólk og reyna að láta þetta ganga.“