Gegnumstreymið heldur spítalanum á floti

Frá gjörgæsludeild Landspítala.
Frá gjörgæsludeild Landspítala. Ljósmynd/Landspítali

„Það sem bjargar okkur, þrátt fyrir allt, er gegnumstreymið,“ segir Már Kristjánsson, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar Land­spít­ala, þar sem 16 liggja inni vegna Covid, þar af eitt barn. Fjórir eru á gjörgæslu, þrír þeirra í öndunarvél en þar af er einn einnig í ECMO hjarta- og lungnavél.

Helmingur þeirra sem liggur inni vegna veirunnar er bólusettur. Már segir að það sjáist á því að það fólk stoppi skemur á spítalanum og af þeim sökum gæti spítalinn sloppið við að opna ekki fleiri en eina legudeild.

Már Kristjánsson.
Már Kristjánsson. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Óbólusettir þurfa, að sögn Más, á lengri sjúkrahúsvist að halda, og veikjast verr. 

„Líkurnar á því að veikjast ef þú ert óbólusettur eru svona fimm sinnum meiri en ef þú ert bólusettur,“ segir Már en sama kom fram í skilaboðum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á covid.is fyrr í dag.

Enn fremur eru óbólusettir um átta sinnum líklegri til að leggjast inn á gjörgæsludeild og þurfa á aðstoð öndunarvélar að halda. Már ítrekar mikilvægi bólusetninga og brýnir fyrir fólki að þiggja örvunarbólusetningu, standi hún því til boða.

Mikill mannskapur vegna veirumála

„Covid viðfangsefnið er í sjálfu sér ekki yfirgengilega mikið en þetta er mjög mannaflakrefjandi. Síðan eru tæplega þúsund manns á Covid-göngudeildinni og það eru daglega margar skoðanir einstaklinga þar sem verið er að hyggja að framvindu veikinda og leggja mat á hvort fólk þarfnist sjúkrahúsvistar eða ekki,“ segir Már.

Spítalinn hafi ágætis tök á þessu verkefni en geti á sama tíma ekki framkvæmt allar skurðaðgerðir og þá séu of margir sem liggi inni á bráðamóttökunni í Fossvogi. 

Árstíðabundin veikindi barna svæsnari í ár

Eins og Már benti á í síðustu viku í samtali við mbl.is er farið að bera á árstíðabundnum veirusýkingum meðal barna og nóg að gera á Barnaspítalanum af þeim sökum.

Ef fram heldur sem horfir á Norðurlöndunum eigum við í vændum geigvænlegan öndunarfærasýkingafaraldur barna,“ segir Már og bendir á að þessi árstíðabundnu veikindi barna séu svæsnari nú en yfirleitt vegna þess að þær náðu engu flugi síðasta vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert