Guðbrandur ráðinn til Brynju leigufélags

Guðbrandur Sigurðsson er nýr framkvæmdastjóri Brynju leigufélags.
Guðbrandur Sigurðsson er nýr framkvæmdastjóri Brynju leigufélags. Ljósmynd/Aðsend

Guðbrandur Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Brynju leigufélags frá og með 4. nóvember 2021. Brynja er hússjóður Öryrkjabandalags Íslands og hefur það hlutverk að eiga og reka íbúðir sem leigðar eru öryrkjum.

Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og var stofnaður árið 1965. Fyrstu verkefni sjóðsins voru íbúðir í Hátúni í Reykjavík en frá þeim tíma hefur sjóðurinn eignast um 860 leiguíbúðir um land allt. Sjóðurinn leggur áherslu á traustan rekstur og efnahag og að bæta við hentugum íbúðum eins og frekast er kostur, að því er fram kemur í tilkynningu.

Guðbrandur starfaði sem stjórnandi í sjávarútvegi og mjólkuriðnaði um árabil hjá Brimi og Mjólkursamsölunni. Hann var framkvæmdastjóri PwC 2013-2016 og framkvæmdastjóri Heimavalla frá 2016 til 2019. Síðastliðin tvö ár var hann framkvæmdastjóri Borgarplasts þar sem hann lét af störfum í júlí á þessu ári. Guðbrandur er með B.Sc. próf í matvælafræði frá Háskóla Íslands og MBA próf frá Edinborgarháskóla.

Stjórnarformaður Brynju leigufélags, Garðar Sverrisson, segir fólk mjög ánægt með að hafa fengið Guðbrand til liðs og sjóðurinn vænti mikils af honum. Hann sé þaulreyndur og farsæll stjórnandi með þekkingu og reynslu sem nýtast muni vel til að tryggja sem flestum eins lága leigu og frekast sé kostur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert