Það stendur til að auka fjárframlög Norðurlandanna til menningarmála um 180 milljónir króna, en menningarmálaráðherrar landanna funduðu nú í morgun. Nemur hækkunin um 6% frá fyrri áætlun. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að ráðherrarnir fagni þessari þróun, en áður stóð til að draga verulega saman seglin í þessum málaflokki á næsta ári.
Lilja segir fagnaðarefni að búið sé að vinda ofan að þeim fyrirætlunum. „Ráðherrarnir og ég voru búin að segja að við mættum ekki draga saman útgjöld til menningarmála á Covid-tímum.“
Á fundi ráðherranna var einnig rætt mikið um áhrif alþjóðlegra tæknirisa á borð við Facebook og Google á samfélagið. „Þar erum við að tala um áhrif þeirra á lýðræðið í aðdraganda kosninga, áhrif þeirra á fjölmiðla og auglýsingatekjur, áhrif á tungumálið og fleira,“ segir Lilja og bætir við að mikill þungi hafi verið í orðum ráðherranna á fundinum, meiri en áður.
„Þessi mál verða tekin sérstaklega upp á vettvangi okkar. Þá er líka verið að horfa til sameiginlegrar skattlagningu á þessa miðla. Það verður að vera alþjóðleg lausn til þess að styðja betur við fjölmiðla og tungumál ríkjanna. Við vorum algjörlega sammála um þetta,“ segir Lilja. Hún segir að Norðmenn, sem eru að taka við formennsku í Norðurlandaráði, ætli að leggja mikla áherslu á þessi mál í formennskutíð sinni.
„Það var mikill þungi í málinu. Það kom fram í máli sænska, danska og norska ráðherrans, að þeir eru allir að huga að stuðningi við sína einkareknu fjölmiðla.“ Lilja segir að þar sé meðal annars horft til þeirra lausna sem gripið hafi verið til á Íslandi.
Hún bætir við að ráðherrarnir hafi einnig haft mikinn áhuga á erindi hennar til Disney varðandi talsetningu á barnaefni, en þessi mál, sem og hlutir eins og notkun tungumálsins í nýrri stafrænni tækni, eru enn í á byrjunarstigi hjá hinum norrænu ríkjunum.
Eitt af því sem sérstaklega var rætt var hvaða áhrif algóryþmar tæknirisanna hafa á samfélagið, sem og notkun ungs fólks á samfélagsmiðlum og áhrif miðlanna til góðs og ills. Lilja bendir á að ungt fólk noti tækni sífellt meira, jafnvel í allt að fimm klukkustundir á dag.
Hún segir í því samhengi að nýlegar fregnir frá Bandaríkjunum um starfshætti Facebook hafi verið rædd á fundinum, en þar var fyrirtækið m.a. sakað um að hafa vísvitandi ýtt undir pósta sem voru til þess fallin að vekja reiði.
Lilja segir að ráðherrarnir hafi verið á því að ef verið sé að hanna algóryþma og beita þeim á þann veg, komi það jafnvel til alvarlegrar athugunar að þjóðþingin skerist í leikinn og hugi að löggjöf til þess að takmarka slíka hegðun tæknirisanna.
Þá var samþykkt á fundinum að hefja endurbætur á Norræna húsinu í Reykjavík. Ráðist verður strax í aðkallandi viðgerðir, en heildarkostnaður við endurnýjun hússins er áætlaður um 30 milljónir danskra króna.
„Þetta er verkefni næstu fimm til tíu ára. Það þarf að fara í endurbætur á húsinu, og ráðherrarnir voru sammála um að það yrði fjármagnað úr sameiginlegu framlagi Norðurlandanna. Alvar Alto hannaði húsið, þannig að Finnar lögðu sérstaka áherslu á að það yrði hlúð að því," segir Lilja að lokum.