Hrekkjavakan í skugga heimsfaraldurs

Hrekkjavakan hefur fest sig rækilega í sessi hér á landi …
Hrekkjavakan hefur fest sig rækilega í sessi hér á landi síðustu ár. AFP

Jón Gunnar Bergs, eigandi Partýbúðarinnar segir rekstur búðarinnar ekki búinn að vera neitt sérstaklega spennandi í kórónuveirufaraldrinum. Salan á grímubúningum og öðrum hrekkjavökuvarningi hafi þó gengið vel í ár, honum og samstarfsfólki hans til mikillar gleði.

„Vegna samkomutakmarkana misstum við fermingartörnina vorið 2020 og svo voru hrekkjavakan og áramótin það ár erfið líka. Þetta var eiginlega bara skelfilegt. Salan fyrir hrekkjavöku var þó mikið betri í ár en í fyrra og gekk raunar bara ljómandi vel.“

Jón Gunnar Bergs, eigandi Partýbúðarinnar.
Jón Gunnar Bergs, eigandi Partýbúðarinnar. mbl.is/Rósa Braga

Birgjar sýnt lundargerð í ástandinu

Hann segir fólk hafa verið fyrr í því að tryggja sér búninga heldur en síðastliðin ár og þá hafi nýuppsett netverslun fyrirtækisins komið sér vel.

„Það er eiginlega skömm að segja frá því við settum hana ekki almennilega í loftið almennilega fyrr en haustið 2020. Hún hjálpaði okkur aðeins í fyrra en kom mikið betur út núna þegar það er komin ársreynsla á hana.“

Spurður segir hann yfirvofandi vöruskort og hækkun á flutningskostnaði ekki hafa haft áhrif á rekstur fyrirtækisins í ár.

„Við höfum blessunarlega sloppið við það, ótrúlegt en satt. Við eigum náttúrulega langt og farsælt samband við alla okkar byrgja, sem hafa sýnt langlundargeð þegar ástandið var sem erfiðast en nú eru allir orðnir kátir á ný.“

Jón telur öskudaginn „alls ekki“ vera að falla í skuggann á hrekkjavökunni, inntur eftir því.

„Mér finnst þetta vera tvær mjög góðar hátíðir sem koma á góðum tíma sitthvoru megin við jólin. Hrekkjavakan er sérstaklega vel tímasett, ekki síst fyrir okkur hérna á Íslandi, því þá er Verslunarmannahelgin búin en ennþá dálítið langt til jólanna. Þetta er bara skemmtileg fjölskylduhátíð svona þegar myrkrið og kuldinn sækir á. Öskudagurinn er þó alls ekkert að gefa eftir, hann er bara öðruvísi.“

En hvaða búningar ætli hafi verið vinsælastir fyrir hrekkjavökuna í ár? Halla Ýr Albertsdóttir, rekstrastjóra Partýbúðarinnar, segir klassíska búninga á borð við nornir og beinagrindur hafa verið vinsælasta hjá yngri kynslóðinni, innt eftir því. Þá hafi blóðugir búningar og búningar tengdir spænsku þáttaseríunni Money Heist verið sérstaklega eftirsóttir af fullorðna fólkinu

Money Heist eru spænskir spennuþættir á streymisveitunni Netflix.
Money Heist eru spænskir spennuþættir á streymisveitunni Netflix.

„Svolítið erfiðara rekstrarumhverfi en áður“

Sama var uppi á teningnum hjá Einari Luai Arnarssyni, eiganda Hókus Pókus, sem segir sölu á búningum og hrekkjavökuvarningi í versluninni hafa gengið mun betur í ár heldur en í fyrra. Ólíkt Partýbúðinni hafi vöruskortur og hærri flutningskostnaður þó haft áþreifanleg áhrif á reksturinn Hókus Pókus í ár, að sögn Einars.

„Það var klárlega erfiðara að fá vörur og það getur tekið lengri tíma að fá þær afhentar nú heldur en áður. Maður finnur líka alveg fyrir því að það er minna til hjá byrgjum og þá þarf maður að hafa aðeins meira fyrir hlutunum.“

Einar Arnarsson, eigandi Hókus Pókus.
Einar Arnarsson, eigandi Hókus Pókus. mbl.is/Þórður

Þá sé óvissa um samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins rekstri verslana á borð við Hókus Pókus ekki til framdráttar heldur.

„Það er erfitt að plana fram í tímann því maður á allt eins von á því að samkomutakmarkanir verði hertar og þá vill maður ekki sitja uppi með of mikið af vörum eins og gerðist í fyrra. Þannig þetta er svolítið erfiðara rekstraumhverfi en áður.“

Fólk kaupi þó yfirleitt alla þá búninga sem eru til hverju sinni, að sögn Einars.

„Vinsælustu vörurnar fara alltaf fyrst og svo fara þær allar þegar nær dregur.“

Spurður segir Einar uppblásna búninga hafa notið mestra vinsælda hjá yngri kynslóðinni fyrir hrekkjavökuna í ár en að fullorðnir hafi frekar valið ofurhetjubúninga eða aðra klassíska búninga á borð við vampírur og nornir.

Þá tekur Einar í sama streng og Jón hvað varðar þá staðreynd að hrekkjavakan sé að festa sig í sessi hér á landi.

„Mér finnst þetta bara skemmtilegt og held að þetta sé bara jákvæð þróun. Fólk hefur gaman af þessu og leggur oft mikið metnað í þetta. Öskudagurinn heldur þó alveg velli. Hrekkjavakan bætist bara ofan á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert