Lítill áhugi prófasta á „Skírnarskógi“

Háteigskirkja.
Háteigskirkja. Ljósmynd/mbl.is

Næsta lítið hefur orðið úr áformum þjóðkirkjunnar um að planta trjám fyrir öll börn skírð hér á landi vegna dræmra undirtekta prófasta. Þetta kemur fram í svari Agnesar M. Sigurðardóttur biskups við fyrirspurn frá sr. Hreini S. Hákonarsyni um málið á kirkjuþingi.

Enn sem komið er hefur þetta aðeins verið gert í Skálholti. Hafa þar verið gróðursettar um eitt hundrað plöntur. Kostnaður fram að þessu er því lítill, aðeins um eitt hundrað þúsund krónur.

Kynnt í nýárspredikun

Biskup kynnti verkefnið „Skírnarskógur“ upphaflega í nýárspredikun í Dómkirkjunni í fyrra. Fram kom að hvert skírt barn í þjóðkirkjunni yrði hluti af grænni kirkju Krists sem sett hefði umhverfismál í algjöran forgang. Í Skírnarskógi íslensku þjóðkirkjunnar yrði gróðursett tré fyrir hvern skírðan einstakling. „Tréð mun síðan vaxa, rétt eins og barnið, og verða hluti af umhverfinu og gagnast samfélaginu,“ sagði biskup. Gróðursetningin í Skálholti fór síðan fram með nokkurri viðhöfn í byrjun september í fyrra. Hvergi annars staðar hefur trjám verið plantað í þágu þessa verkefnis.

Í svari biskups á kirkjuþingi segir að reiknað hafi verið með að prófastsdæmin, sem eru níu að tölu, önnuðust framkvæmd „Skírnarskógar“, hvert á sínum stað, en viðbrögð hafi verið dræm til þessa þótt einstaka prófastar hafi lýst áhuga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert