Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, telur að Norðurlöndin geti haft mikil áhrif á þróun loftslagsmála langt umfram það sem losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum segir til um. Telur hann að með því að draga úr losun án þess að það komi niður á lífsgæðum, og samtímis tryggja réttlát umskipti yfir í lágkolefnishagkerfi, geti Norðurlöndin verið öðrum að fyrirmynd.
Þetta kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðsins.
Umhverfis- og loftslagsráðherrar Norðurlanda funduðu í Kaupmannahöfn í dag í tengslum við þing Norðurlandaráðs og var loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna COP26 til umræðu.
Ræddu ráðherrarnir meðal annars stöðu samningaviðræðna og hvernig samstarf Norðurlanda gæti stuðlað að farsælli niðurstöðu. Voru þeir m.a. sammála um að samstaða þeirra gæti þrýst á um árangur af samningaviðræðum loftslagsráðstefnunnar.
Á fundinum sagði Guðmundur frá langtímasýn Íslands um kolefnishlutleysi sem var lögð fram í aðdraganda COP26 ráðstefnunnar. Kom þar m.a. fram að íslensk stjórnvöld hefðu lögfest markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og að markmið um samdrátt í losun til 2030 hefðu verið uppfært í 55%. Er þetta gert í samstarfi við Noreg og Evrópusambandið.
Saman hafa Norðurlöndin unnið að því að gert verði samkomulag um nýjan alþjóðlegan samning til þess að takast á við plastmengun. Á fundinum samþykktu ráðherrarnir yfirlýsingu um mikilvægi þess að tekin verði ákvörðun um þá það á umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna næsta árs að hefja samningaviðræður um gerð alþjóðlegs samnings um plastmengun.
Þá ræddu ráðherrarnir einnig um þátttöku ungs fólks á fundi umhverfis- og loftslagsráðherra sem mun fara fram í Stokkhólmi á næsta ári.