Óskað er eftir því að rjúpnaveiðimenn sendi Náttúrufræðistofnun Íslands afklippta vængi af veiddum rjúpum í ár, til að hægt sé að aldursgreina fuglana. Þetta segir Ólafur Karl Nielsen, fuglafræðingur hjá stofnuninni, í samtali við mbl.is.
Um er að ræða gögn sem stofnunin safnar á hverju ári frá veiðimönnum, að sögn Ólafs. Upplýsingar sem fást við aldursgreininguna og úr veiðiskýrslum sem veiðimenn skila til Umhverfisstofnunar megi svo nota til þess að meta stofnstærð, veiðiafföll og náttúruleg afföll fuglanna.
Samkvæmt aldursgreiningu rjúpuafla 2020 var viðkoma rjúpunnar mest á Norðausturlandi og Suðurlandi á veiðitíma síðasta árs eða 3,8 ungfuglar á hvern kvenfugl. Hún var svo lökust á Vestfjörðum og á Norðvesturlandi eða 2,6-2,7 ungfuglar á hvern kvenfugl. Inntur eftir því segir Ólafur laka viðkomu rjúpunnar geta verið slæmu tíðarfari að kenna.
„Við vitum að rjúpur eru mjög viðkvæmar fyrir tíðarfari þannig ef tíðin er mjög hörð, sérstaklega á ungatíma í síðari hluta júní og júlí, þá ferst stór hluti unganna. Það eru slíkir þættir sem geta eyðilagt viðkomuna í einstaka landshlutum.“
Rjúpan sé þó frjósamur fugl og náttúrleg afföll þeirra misþung eftir árum, að sögn hans.
„Það voru á bilinu 2,6 upp í 3,8 ungfuglar á hvern kvenfugl í byrjun nóvember en hver kvenfugl verpir að jafnaði 11-12 eggjum og klekur svo að jafnaði 10-11 af þeim eggjum. Það eru ekki mikil afföll í hreiðrum en afföll sem lenda á fuglunum yfir sumarið og á ungunum yfir haustið eru misþung eftir árum.“
Til að fá þessi aldurshlutföll á hreint þurfi Náttúrufræðistofnun Íslands að fá í það minnsta 300 vængi úr hverjum landshluta á hverju ári. Það náist þó ekki alltaf, að sögn Ólafs.
„Það hefur yfirleitt verið erfitt að fá fugla af Vestfjörðum, Norðvesturlandi og Suðurlandi. Bæði helgast þetta af misgóðum tengslum sem við höfum við samfélag veiðimanna og lítilli veiði á Suðurlandi almennt en við hvetjum menn endilega til að senda inn vængi í ár.“