Seðlabankinn hyggst ná kolefnishlutleysi á árinu

Seðlabankinn ætlar að ná kolefnishlutleysi á þessu ári en bankinn …
Seðlabankinn ætlar að ná kolefnishlutleysi á þessu ári en bankinn hefur tvo mánuði til stefnu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Seðlabanki Íslands skuldbatt sig í dag til þess að stefna að kolefnishlutleysi í eigin starfsemi í ár. Þá hefur hann einnig sett sér markmið um að minnka kolefnisfótspor sitt um 40% fyrir árið 2030. Skuldbindingin er í tenglsum við yfirlýsingu samtaka grænni fjármálageira á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í dag. 

Seðlabankinn er hluti af samtökunum sem lýstu yfir vilja sínum og ásetningi í dag til þess að „starfa saman að því að stuðla að og þróa bestu framkvæmd áhættustýringar í fjármálageiranum í tengslum við loftslags- og umverfismál og stuðla að sjálfbærri og umhverfisvænni fjárfestingu,“ að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum. 

Leggja fram leiðbeiningar fyrir eftirlitsskylda

Seðlabankinn skuldbatt sig auk þess til þess að leggja fram leiðbeiningar fyrir eftirlitsskylda aðila sem myndu auðvelda þeim að skilgreina, meta og vakta þá loftslagsáhættu sem kemur á efnahagsreikningum þeirra. Þá muni bankinn vinna með fjármálastofnunum „til að öðlast betri skilning á lofstlagsáhættuþáttum sem snúa að fjármálakerfinu og hagkerfinu í heild.“

Aðar skuldbindindgar seðlabankans eru eftirfarandi:

  • Seðlabankinn stefnir að því að taka mið af loftslagsáhættu í álagsprófum á fjármálakerfinu og aðilum fjármálamarkaðar, á grundvelli sviðsmynda NGFS. Bankinn mun nota niðurstöðu prófanna til að koma auga á veikleika í efnahagsreikningum fjármálafyrirtækja og vekja þau og aðra hagaðila til vitundar um hugsanleg áhrif loftslagsáhættu á fjármálastöðugleika.
  • Seðlabankinn mun setja lágmarkskröfur um hvernig taka skuli tillit til loftslagsáhættu við varðveislu gjaldeyrisforðans.
  • Seðlabankinn mun miðla þekkingu á loftslagstengdum viðfangsefnum sem hann öðlast á grundvelli reynslu sinnar, sérfræðikunnáttu og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi með fjármálafyrirtækjum og öðrum stjórnvöldum til þess að auðvelda þeim að auka og styrkja vinnu sína á þessu sviði.
  • Seðlabankinn mun nota fræðsluefni frá NGFS til að veita starfsfólki sínu nauðsynlega færni og þekkingu á loftslagstengdum áhættuþáttum í því skyni að innleiða viðeigandi tillögur NGFS á skilvirkan hátt.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert