Samfélagsmiðlastjarnan og tónlistarmaðurinn Ágúst Beinteinn Árnason, betur þekktur sem Gústi B, segist hvorki geta staðfest né neitað fyrir að sérsveit ríkislögreglustjóra hafi mætt að heimili hans til þess að leggja hald á gæludýraref hans, Gústa Jr.
Gústi segir aðeins að ef svo væri, myndi það sýna svart á hvítu að hverju yfirvöld beina helst sjónum sínum og valdtækjum.
mbl.is hefur haldbærar heimildir fyrir því að sérsveitin hafi mætt að heimili Gústa B til að handsama Gústa Jr.
Mikið hefur verið fjallað um refinn Gústa Jr. undanfarnar vikur og tilraunir Matvælastofnunnar til þess að koma höndum sínum yfir hann. Gústi hefur haldið því statt og stöðugt fram að refnum líði vel hjá sér, hann fái nóg af góðum mat að borða, fái að leika sér og hvílast til skiptis og að hann sé góður og rólegur í kringum eiganda sinn.
Félagarnir Gústi B og Gústi Jr. hafa nú flúið út í sveit til þess að forðast ágang Mast, lögreglunnar og blaðamanna.
Fyrir ekki svo löngu voru sagðar fréttir af því á Vísi að Þóra Jóhanna Jónasdóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, teldi að refurinn sætti illri meðferð. Hann bæri skýr merki um kvíða á þeim myndböndum sem sæjust af honum á samfélagsmiðlum.
Þetta þvertekur Gústi B fyrir og segir:
„Ég velti því fyrir mér hvort þau ætli kannski líka að mæla streitu í refum í Húsdýragarðinum eða refunum sem eru skotnir í massavís úti í náttúrunni. Hvað með streituna í minkunum sem ræktaðir eru hér á landi í pínulitlum búrum, bara til þess að verða slátrað? Það er spurning hvort þessi dýr öll lifi algjörlega streitulausu lífi, ég spyr mig hvort Mast hafi engar áhyggjur af þeim.“