Sigmundur Davíð: „Ég brást þjóðinni“

Sigmundur segist hafa átt að vera gagnrýnni á loftslagsáætlanir en …
Sigmundur segist hafa átt að vera gagnrýnni á loftslagsáætlanir en hann hafi verið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segist hafa brugðist íslensku þjóðinni á COP-loftslagsráðstefnunni sem hann fór á í París árið 2015, sem þáverandi forsætisráðherra Íslands. Hann segist hafa átt að vera gagnrýnni á áætlanir ráðstefnunnar en hann hafi verið.

Þetta skrifar Sigmundur á vef breska tímaritsins The Spectator, sem birtist í dag. Hann segist hafa verið of upptekinn af öðrum hlutum þegar á ráðstefnunni stóð árið 2015, „fyrst og fremst þeim óviðjafnanlegu ráðstöfunum sem gerðar voru í efnahagslífinu eftir fjármálakreppuna“.

„Ég veit að það er ekki fullkomin afsökun, ég geri mér grein fyrir að ég hefði átt að efast um hóphugsunina,“ skrifar Sigmundur.

„Hins vegar var búið að ákveða allt áður en ég kom, þið vitið hvernig þetta virkar, nú til dags taka stjórnmálamenn venjulega ekki stefnu heldur eru orðnir talsmenn fyrir stefnur stofnananna.“

Ímyndunaruppbygging

Sigmundur segir umræðuna um loftslagsbreytingar vera að færast frá staðreyndabyggðri umræðu yfir í ímyndunaruppbyggingu og bætir við að þannig sé það í hans heimalandi, Íslandi.

„Ísland er líklega umhverfisvænasta land í heimi. Tæplega 100 prósent af raforku okkar koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta fullnægir þó ekki íslenskum umhverfisverndarsinnum sem benda á að á mann framleiðir Ísland meiri og losar meiri orku en nokkurt annað land á jörðinni.“

Hann segir megnið af þessari orku fara í stóriðju, sérstaklega framleiðslu á áli, þar á eftir í framleiðslu kísils og annarra málma.

Stóriðjan stærsta framlagið

Sigmundur telur þetta vera stærsta framlag Íslands til að berjast gegn loftslagsbreytingum og að ef álframleiðsla Íslands myndi færast alfarið yfir til Kína myndi hún líklega losa tíu sinnum meiri koltvísýring.

„Í framtíðarsýn Íslands er engin álframleiðsla (sem væntanlega hefur verið flutt til Kína) og bæði efnahags- og fólksfjölgun er tiltölulega lítil,“ skrifar Sigmundur.

„Áætlunin er sú að Ísland hætti að gera það sem hefur reynst hagkvæmast til að takmarka kolefnislosun um allan heim og íbúarnir verða fátækari. Síðan er útskýrt að fólk muni ferðast minna og við fáum færri ferðamenn. Það sem eftir verður af búfé verður fóðrað á þangi í landi þar sem gras er nóg. Þessu er ætlað að bjarga jörðinni með því að draga úr vindgangi íslenskra kúa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert