Landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu sá ýmsa vankanta á framkvæmd og utanumhald á framhalds og sérnámi innan heilbrigðisstofnana. Þar á meðal væru kröfur til nemenda ólíkar á milli faghópa og háskóla en líka mikill munur á stuðningi og þóknunum til þeirra sem sinna handleiðslu eða klínískri kennslu.
Landsráðið vinnur nú að kortlagningu á því hve margar náms- og sérnámsstöður séu fyrir hendi inni á heilbrigðisstofunum. Þá féllst heilbrigðisráðuneytið á þá tillögu að fé til framhaldsnáms og sérnáms í heilbrigðisgreinum verði skilgreint sérstaklega sem hefur ekki verið hingað til.
Vilja auka yfirsýn
„Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt tillögur um verkefni og aðgerðir sem landsráð telur mikilvægt að ráðast í með það að markmiði að fá yfirsýn yfir fjölda einstaklinga í framhalds- og sérnámi í heilbrigðisgreinum, auka gegnsæi og samræmi þegar teknar eru ákvarðanir um fjármögnun og fjölda stöðugilda í einstökum sérgreinum og skapa tækifæri til að bregðast tímanlega við yfirvofandi skorti eða offramboði á stöðum,“ segir í tilkynningu um málið á vef Stjórnarráðs.
Lengri tíma áætlun í þessum málaflokki gerir ráð fyrir því að innan tveggja ára verði fjöldi fjármagnaðra stöðugilda í sér- og framhaldsnámi ákveðinn árlega á miðlægum vettvangi og að fjármögnunin verði veitt í hlutfalli við námsstöður á hverri stofnun.