Stálhöfði, Andvaranes og Otursnes í Skerjafirði

Nýju göturnar og torgið í Skerjafirði.
Nýju göturnar og torgið í Skerjafirði. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Stálhöfði, Andvaranes og Lautarmúli eru ný götuheiti í Reykjavík. Skipulagsfulltrúi óskaði eftir því við nafnanefnd að fá tillögur að nöfnum gatna í nýrri byggð í Skerjafirði, Ártúnshöfða og Orkureit. Skipulags- og samgönguráð samþykkti tillögur nefndarinnar á fundi sínum í morgun.

Í Skerjafirði eru ný gatnaheiti AndvaranesOtursnes og Reginsnes auk þess sem nýtt torg fær nafnið Igðutorg, að því er fram kemur á vef borgarinnar.

Innblásturinn að nýju götunöfnunum er fenginn frá Sigurði Fáfnisbana og sagnaheimi í kringum hann en Otur og Reginn eru bræður Fáfnis en fyrir eru í Skerjafirði til dæmis Fáfnisnes og Gnitanes.

Horft að Skerjafirði frá flugvellinum í höfuðborginni.
Horft að Skerjafirði frá flugvellinum í höfuðborginni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á Ártúnshöfða er innblásturinn öllu tengdari raunheimum og er úr atvinnusögu hverfisins en þar bætast við göturnar Stálhöfði og Steinhöfði og nýr garður fær nafnið Iðjugarður.

Á Orkureit, sem er milli Suðurlandsbrautar, Grensásvegar og Ármúla, koma göturnar Dalsmúli, Blámúli, Barðmúli og Lautarmúli. Til viðbótar fær nýtt torg nafnið Múlatorg. Þarna leitar nafnanefnd í þá hefð Múlar séu nefndir eftir landslagi eins og Ármúli og Síðumúli. Þess má geta að blá þýðir þarna mýri.

Nafnanefnd var beðin um að leggja til nafn á hliðarveg við Vesturlandsveg, milli Brimness og Kjalarness og er einfaldlega lagt til að vegurinn verði nefndur Hofsvíkurvegur. Einnig var hún beðin um að finna nafn á veg sem liggur frá Þingvallavegi og upp í skíðaskála og loftskeytamastur á Skálafelli. Þar er einfaldleikinn líka í fyrirrúmi og fær vegurinn nafnið Skálafellsvegur.

Nafnanefnd skipa Ármann Jakobsson, Guðrún Kvaran, Ásrún Kristjánsdóttir og Nikulás Úlfar Másson, sem er formaður nefndarinnar. Til viðbótar situr Hrafnhildur Sverrisdóttir verkefnisstjóri hjá skipulagsfulltrúa fundi nefndarinnar.

Afgreiðslan bíður samþykktar borgarráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert