„Ég held að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir hversu mikið álag fylgir starfi lögreglumannsins og enn síður að streitan sem því tengist getur haft mikil áhrif á nánasta umhverfi, fyrst og fremst maka og börn.“
Þetta segir Ingveldur E. Össurardóttir, nemi í félagsráðgjöf við HÍ, sem nýlega birti grein í Lögreglumanninum, málgagni Landssambands lögreglumanna, sem byggð er úttekt á erlendum rannsóknum á því hvernig vinnutengd streita, sem þjáir marga lögreglumenn, getur yfirfærst á fjölskyldur þeirra.
„Starfið er líka þess eðlis að það hefur einkennst af því sem kallast „tough-guy heilkennið“ en það dregur úr því að lögreglumenn leiti sér faglegrar aðstoðar eftir tilfinningaleg áföll, t.d. í tengslum við voveiflega atburði. Í því lenda flestir lögreglumenn ítrekað á ferlinum og ef ekki er unnið úr slíkum tilfinningahnútum getur það að lokum komið harkalega niður á fjölskyldunni.“
Margt virðist benda til þess að lögreglumenn séu einfaldlega of duglegir að harka af sér.
Sjálf kveðst Ingveldur hafa komið með hugmynd að sumarverkefni um þetta efni til ríkislögreglustjóra og embættið tekið henni opnum örmum.
Fram að þessu hafa engar rannsóknir verið gerðar hérlendis á hvernig streita lögreglustarfsins getur haft veruleg áhrif á fjölskyldur þeirra sem sinna löggæslu. Ingveldur segir að það þurfi að kanna til að hægt sé að þróa forvarnir og bjargráð en sjálf telur hún að áhrifanna gæti í svipuðum mæli og birst hefur í erlendum rannsóknum á þessari öld.
„Ég byggi það á því að streita virðist útbreidd í stéttinni hér á landi. Í einni könnun kom til dæmis fram að tíundi hver lögreglumaður er þjakaður af streitu, þunglyndi eða kvíða í þeim mæli að margir þyrftu á sálfræðilegum úrræðum að halda.
Önnur sýndi að 15% lögreglumanna sýna beinlínis merki um áfallastreituröskun. Þetta er ekki ósvipað erlendum niðurstöðum, þótt „streituskorið“ sé kannski ívið lægra hér á landi. Mér finnst því líklegt að starfstengd streita skilji líka eftir sig ummerki í fjölskyldum íslenskra lögreglumanna eins og erlendis,“ segir hún.
Álagið sem fylgi lögreglustarfinu, ekki síst þar sem vaktavinna er mikil, leiði oft til árekstra milli fjölskyldulífs og starfsins.
„Þegar ég skoðaði erlendar kannanir fannst mér athyglisvert að meirihluti maka taldi starfið hafa áhrif á fjölskylduna. Í einni sögðu til dæmis 75% makanna að starfið væri lögreglumanninum mikilvægara en fjölskyldan, og í nýlegri könnun taldi þriðjungur að vinnutengd streita bitnaði á fjölskyldunni. Margir urðu undrandi þegar þessi togstreita milli starfsins og fjölskyldunnar birtist og einn fræðimaður orðaði það svo í að lífi fjölskyldunnar væri lögreglustarfið „afbrýðisama hjákonan“.“
Hún segir að meðal þess sem valdi álagi og kvíða hjá mökum og börnum fólks í lögreglunni sé margvíslegur háski sem fylgir starfinu. „Lögreglumenn lenda til dæmis í miklu meira ofbeldi í starfi en almenningur veit. Í einni könnun höfðu yfir 40% upplifað ofbeldi í starfi, sumir hlotið alvarlega áverka, í einstöku tilvikum líkamlega fötlun,“ segir Ingveldur og veltir því upp að skiljanlegt sé aðstandendur lögreglumanna hafi áhyggjur vegna starfsins.
Ingveldur segir að hún sjálf hafi orðið hissa þegar hún rakst á að samkvæmt skýrslum Vinnueftirlitsins hafi á þessari öld orðið veruleg fjölgun á tilkynningum um slys og áverka á lögreglumönnum. Milli áranna 2005-15 hafi þær t.d. tífaldast. Hún nefnir aðra ógn sem efalítið skapi álag og kvíða hjá aðstandendum:
„Í sömu könnun og skoðaði upplifun lögreglunnar af ofbeldi í starfi kom líka fram að mikill meirihluti hennar hafði fengið hótanir um líkamsmeiðingar, sem í langflestum tilvikum beindust gegn börnum þeirra. Þriðjungurinn kom fram utan vinnutíma sem skiljanlegt er að menn túlki sem einbeittan ásetning. Svona veldur ekki ró í sálinni.
Ingveldur segir að innan lögreglunnar, bæði heima og erlendis, skapist oft ákveðinn kúltúr sem felur í sér að það sé álitið veikleikamerki að leita sér aðstoðar. „Þetta er það sem kallað er „tough-guy-heilkennið“. Staðalímyndin hjá báðum kynjum innan lögreglunnar er að harka af sér og sýna ekki bilbug.
„Löggurnar eru bara venjulegir og yfirleitt vel gerðir einstaklingar sem finna til eins og við hin, en koma oft að hræðilegum aðstæðum. Stundum eru það alvarleg slys, morð, sjálfsvíg og kannanir erlendis sýna til dæmis að fyrir langflesta er mjög þungbært að stíga inn í aðstæður þar sem svæsið barnaníð er í gangi. Úr þessum tilfinningum þarf að vinna með faglegri aðstoð. Það eru bjargráð okkar í nútímanum,“ segir Ingveldur að endingu.