Tafir hafa orðið á framkvæmdum við götuna Litluhlíð neðan Öskjuhlíðar. Þeim átti ljúka í þessum mánuði en nú er áætlað að verklok verði í febrúar 2022, að því er fram kemur í framkvæmdasjá Reykjavíkurborgar.
Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir að hægt verði að opna fyrir umferð bíla og gangandi/hjólandi í Litluhlíð um miðjan desember. Einnig er gert ráð fyrir að komið verði aðgengi fyrir gangandi/hjólandi að stoppistöðvum strætó á Bústaðaveginum og að gönguleiðin yfir Bústaðaveginn, sem liggur upp Öskjuhlíðina að Perlunni, verði tilbúin. Frágangur á hjólastígnum undir Litluhlíð ásamt hluta af yfirborðsfrágangi beggja vegna Litluhlíðar mun frestast.
Framkvæmdin felur í sér breytingu/þrengingu í Litluhlíð, gerð undirganga undir götuna, göngu- og hjólastígs um undirgöng, stígtengingar og stofnlagnir vatns-, hita-, raf- og fráveitu. Einnig er gert ráð fyrir gróðursvæðum, landmótun, lýsingu við götu, stíga og í undirgöngum.