„Við gáfum rými í að ræða málin“

Skrifstofa ASÍ mun tryggja áframhaldandi starf Eflingar.
Skrifstofa ASÍ mun tryggja áframhaldandi starf Eflingar.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir ýmislegt hafa verið rætt á miðstjórnarfundi ASÍ í dag. Þar á meðal mál Eflingar, þó það hafi ekki verð formlega á dagskrá.

„Við gáfum rými í að ræða málin og svo fór ég yfir hvernig aðkoma skrifstofu ASÍ væri að málinu. Aðkoma okkar er náttúrulega að tryggja áframhaldandi starf félagsins og bjóða fram þá aðstoð sem þarf til þess. Að félagsmenn njóti góðrar þjónustu áfram,“ segir Drífa í samtali við mbl.is. Unnið sé að framhaldinu innandyra í samstarfi og samráði við Eflingu og stuðningur veittur bæði stjórn og starfsfólki.

Þá var staðfest á fundinum í dag að Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, hefði sagt sig frá embætti annars varaforseta ASÍ, og henni þökkuð góð störf frá fulltrúum miðstjórnar. Afsögn Sólveigar barst sambandinu í gær, en hún sagði af sér sem formaður Eflingar í byrjun vikunnar.

Drífa segir varamann hafa verið kallaðan inn á fundinn í stað Sólveigar samkvæmt reglum, en ekki er búið að ákveða hver verður settur í varaforsetaembættið í hennar stað. „Við munum afgreiða hver kemur í hennar stað sem þriðji varaforseti eftir tvær vikur, vænti ég. Á hefðbundnum miðstjórnarfundi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert